Sigríður og Sigurður -Nýr diskur
Þau Sigríður Thorlacius úr Hjaltalín og Sigurður Guðmundsson oft kenndur við Hjálma og Memfismafíuna eru þrátt fyrir ungan aldur löngu orðin meðal dáðustu söngvurum þjóðarinnar. Það var því mikið tilhlökkunarefni þegar þau komu saman með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Hörpu, síðastliðið sumar. Á efnisskránni voru sígildar dægurperlur, innlendar og erlendar, í útsetningu Hrafnkels Orra Egilssonar en Baggalúturinn Bragi Valdimar Skúlason tók að sér að snara nokkrum textum yfir á íslensku.
Óhætt er að fullyrða að útkoman hafi verið hin glæsilegasta. Sinfónían skartaði sínu skærasta og rytmasveit skipuð þeim Eyþóri Gunnarssyni, Guðmundi Péturssyni, Matthíasi Hemstock og Guðmundi Óskari Guðmundssyni setti punktinn yfir i-ið.
Aðalstjörnurnar voru þó Sigurður og Sigríður sem sungu lögin á sinn einstaka máta og glæddu þau nýjum bjarma.
Upptakan frá tónleikunum er sérstaklega glæsileg og einstakur hljómburður Hörpu skilar sér áleiðis á ljúfan hátt.
Hljómplata þessi er mikilvægur vitnisburður, ekki eingöngu um dægurperlur fortíðarinnar, heldur um tónlist nútímans. Hún er á sama tíma tregafull og gleðileg -tímalaus gimsteinn.
„Nostalgískur sæluhrollur“ *****
Agnes Bragadóttir – Morgunblaðið
„Fínar útsetningar. Góð stemning og skemmtileg tónlist“
Jónas Sen – Fréttablaðið
„Nú er því bara að halla sér aftur í sætinu, loka augunum og leyfa tónlistinni að snerta hjartað.“
Elísabet Indra Ragnarsdóttir - Sýningarskrá S.Í.
- Eldri frétt
- Næsta frétt