EN

15. nóvember 2011

SÍ ræður nýja starfmenn

Una Eyþórsdóttir hefur verið ráðin mannauðsstjóri SÍ frá og með 1. desember nk. og Hjördís Ástráðsdóttir hefur verið ráðin fræðslustjóri SÍ og mun hún hefja störf 1. janúar.

Una hefur yfirgripsmikla menntun og reynslu af mannauðsmálum. Hún er með  MS gráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands og jafnframt MBA gráðu í viðskiptafræði.  
Una hefur víðtæka reynslu af starfsmannamálum hjá Icelandair þar sem hún starfaði í 34 ár, meðal annars sem starfsmannastjóri. Hún hefur einnig starfað sem skrifstofustjóri viðskiptadeildar
Háskólans í Reykjavík og sem framkvæmdastjóri ráðgjafaþjónustunnar Framför.

Hjördís er tónmenntakennari með meistaragráðu í tónmennt frá Arizona háskóla í Tuscon og meistaragráðu í menningar- og menntastjórnun frá Háskólanum á Bifröst. Meistararitgerð hennar frá Bifröst fjallar um fræðsludeildir menningarstofnana á Íslandi í samanburði við áþekkar stofnanir í Bretlandi. Hjördís hefur tæplega 20 ára kennslureynslu ásamt reynslu af deildarstjórn í tónlistar- og grunnskóla. Hún hefur tekið virkan þátt í þróun og framkvæmd ýmissa menningartengdra verkefna og stýrt nefndum og hópum um aukin gæði fræðslu, uppeldis og náms.