Úrslit í einleikarakeppni LHÍ og SÍ
Samkeppni Listaháskólans og Sinfóníuhljómsveitar Íslands
Dagana 11. og 12. nóvember síðastliðinn fór fram samkeppni Listaháskólans og Sinfóníuhljómsveitar Íslands um þátttöku einleikara eða einsöngvara á tónleikum hljómsveitarinnar þann 12. janúar næstkomandi. Keppnin var ætluð tónlistarnemendum sem eru á bakkalárstigi í sínu námi.
Þáttakendur voru 14 að þessu sinni, fimm hljóðfæraleikarar og níu söngvarar. Sex manna dómnefnd valdi fjóra keppendur. Þeir eru Chrissie Thelma Guðmundsdóttir, fiðluleikari, Elín Arnardóttir, píanóleikari, Hrafnhildur Árnadóttir, söngkona, og Ísak Ríkharðsson, fiðluleikari. Það var samdóma álit dómnefndarmanna að keppendur hefðu komið afar vel undirbúnir og að tónlistarflutningur hafi almennt verið í háum gæðaflokki.
Í dómnefnd sátu þau Karólína Eiríksdóttir, tónskáld, sem var formaður, Bernharður Wilkinson, hljómsveitarstjóri, Bergþór Pálsson, söngvari, Anna Guðný Guðmundsdóttir, píanóleikari, Þorkell Jóelsson, hornleikari, og Una Sveinbjarnardóttir, fiðluleikari.
Senda á Facebook- Eldri frétt
- Næsta frétt