EN

  • tilbury_listi

15. febrúar 2012

Tectonics tónlistarhátíð 1. - 3. mars

Nýir og spennandi straumar í Hörpu

Áhugamenn um nýja og spennandi tónlist ættu að taka frá dagana 1. til 3. mars en þá hleypir Sinfóníuhljómsveit Íslands nýrri tónlistarhátíð af stokkunum í Hörpu. Á þremur dögum verður boðið upp á ótal tónleika í hinum ýmsu rýmum Hörpu þar sem leiða saman hesta sína Sinfóníuhljómsveit Íslands og ungir íslenskir tónlistarmenn úr raf- og spunageiranum. Auk þess stíga á stokk þekktir erlendir tónlistarmann úr heimi samtímatónlistar, þeirra á meðal breski píanóleikarinn John Tilbury, einn virtasti túlkandi heims á sviði nýrrar og nýlegrar píanótónlistar, sem og ástralski tónlistarmaðurinn Oren Ambarchi.

Tvö tónskáld verða í brennidepli, annars vegar Bandaríkjamaðurinn John Cage, en í ár eru hundrað ár liðin frá fæðingu hans, og hins vegar Magnús Blöndal Jóhannsson, helsti frumkvöðull íslenskrar raftónlistar.


Á meðal íslenskra tónlistarmanna sem koma fram, ýmist einir sér, eða með Sinfóníuhljómsveit Íslands, má nefna hljómsveitirnar Stilluppsteypu og Reptilicus, píanóleikarana Davíð Þór Jónsson og Tinnu Þorsteinsdóttur, tónlistarhópinn S.L.Á.T.U.R, Dag Kára Pétursson, Þórönnu Björnsdóttur, Kristínu Önnu Valtýsdóttur og myndlistarmanninn Ragnar Kjartansson en hann flytur einsöngsverk eftir John Cage.

Þrennir tónleikar verða helgaðir tónlist Magnúsar Blöndals, þar af einir þar sem tónlist Magnúsar verður sett í nýtt samhengi. Á þeim hljóma fjögur glæný verk, innblásin af tónlist hans og pöntuð sérstaklega fyrir tilefnið. Tónskáldin eru: Kira Kira, Ríkharður H. Friðriksson og Auxpan.

Meðal annars verður boðið upp á tónlist eftir bandarísku tónskáldin Christian Wolff og Morton Feldman, Alvin Lucier og Luciano Berio, sýnd verður kvikmynd um Magnús Blöndal Jóhannsson, Skólahljómsveit Kópavogs og Brassband bjóða upp á tónleika í anddyri Hörpu.


Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er Ilan Volkov, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar. Tectonics verður árviss viðburður, en vorið 2013 mun hátíðin verða haldin bæði í Reykjavík og Glasgow í samvinnu við BBC Scottish Symphony Orchestra.

 

VEFUR HÁTÍÐARINNAR