EN

12. mars 2012

Breytingar á tónleikum 15. mars

Mozart-veilsla

Sænska söngkonan Miah Persson og Andrew Staples koma ekki fram á Mozart-veislu Sinfóníunnar 15. mars eins og auglýst var í kynningarbæklingi sveitarinnar í haust.  Í stað þeirra koma til landsins tveir glæsilegir söngvarar; sópransöngkonan Rosemary Joshua og breski tenórinn Benjamin Huletts.

Á tónleikasviðinu vinnur Rosemary Joshua reglulega með mörgum af fremstu hljómsveitarstjórum heims, svo sem Simon Rattle, Nikolaus Harnoncourt, René Jacobs, William Christie, Roger Norrington og Philippe Herreweghe, en með hinum síðastnefnda og Orchestre des Champs-Elysée flytur hún fjórðu sinfóníu Mahlers á geisladiski sem kom út á síðasta ári og vakti mikla athygli.

Rosemary Joshua fæddist í Cardiff og stundaði nám við Royal College of Music í Lundúnum. Að námi loknu þreytti hún frumraun sína á óperusviði á tónlistarhátíðinni í Aix-en-Provence sem Angelica í Orlando eftir Händel. Hún hefur síðan sungið burðarhlutverk í mörgum af mikilvægustu óperuhúsum heims.

Benjamin Hulett útskrifaðist frá Oxfordháskóla, þar sem hann nam og söng við New College, hann hefur komið fram með mörgum af fremstu kórum og hljómsveitum Bretlands. Hann starfaði við Hamborgaróperuna í fjögur ár og söng þar Tamino í Töfraflautunni, Ferrando í Così fan tutte og Jaquino í Fidelio meðal annarra hlutverka. Hann hefur einnig sungið við Bæversku ríkisóperuna, Þýsku ríkisóperuna, Opera North og Theater an der Wien.