EN

27. mars 2012

Aadland stjórnar í stað Labadie 30. mars

Hljómsveitarstjórinn Bernard Labadie  hefur afboðað komu sína á tónleika Sínfóníunnar föstudaginn 30. mars vegna forfalla. Í hans stað kemur Eivind Aadland er einn af virtustu hljómsveitarstjórum Noregs, en hann var aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Þrándheimi um sjö ára skeið frá árinu 2004.

Á Þrándeimsárunum stjórnaði Aadland öllum sinfóníum Beethovens og Malhers og hefur hann unnið með  flestum helstu sinfóníuhljómsveitum Norðurlanda og er reglulegur gestastjórnandi fílharmóníusveitanna í Ósló og Bergen, Sinfóníuhljómsveitar Stafangurs, Sinfóníuhljómsveitar Gautaborgar og Sænsku kammerhljómsveitarinnar. Hann hefur stjórnað Don Giovanni, Brúðkaupi Fígarós, Töfraflautunni og Leðurblökunni við Norsku óperuna í Ósló við góðan orðstír. Aadland hefur unnið mikið í Austurlöndum fjær og í Ástralíu. Árið 2010 fór hann með Sinfóníuhljómsveit Þrándheims í tónleikaferðalag til Kína og stjórnaði KBS Sinfóníuhljómsveitinni í Seúl.  Undanfarið hefur hann unnið náið með Sinfóníuhljómsveit Queensland í Brisbane og var aðalgestastjórnandi hljómsveitarinnar árið 2011.  Aadland myndar sterk tengsl við hljóðfæraleikarana sem hann vinnur með og á það rætur að rekja til reynslu hans sem konsertmeistara Fílharmóníuhljómsveitarinnar í Bergen um árabil og stjórnanda Kammersveitar Evrópusambandsins.