EN

  • ungsveit_listi

18. apríl 2012

Prufuspil í Ungsveitina

Nú standa yfir prufuspil í Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2012 þar sem tæplega 100 ungmenni eru skráð til leiks. Margir umsækjenda tóku þátt í skemmtilegri tónlistarveislu Baldurs Brönnimanns fyrr í þessum mánuði þar sem umsækjendur Ungsveitarinnar léku valda kafla úr Plánetunum eftir Holst.

Hljómsveitarnámskeið Ungsveitarinnar stendur frá 8. september til 30. september. Að þessu sinni verður verkefni hljómsveitarinnar Pláneturnar eftir Gustav Holst. Svissneski hljómsveitarstjórinn Baldur Brönnimann stjórnar námskeiðinu sem lýkur með tónleikum í Hörpu, 30. september kl. 14:00.

Baldur Brönnimann er tónleikagestum Sinfóníuhljómsveitar Íslands að góðu kunnur og hefur stjórnað hljómsveitinni við lof gagnrýnenda. Brönnimann heldur reglulega meistaranámskeið fyrir ungt fólk og hefur unnið mikið með æskulýðshljómsveitum víða um heim, meðal annars í Skotlandi og Ástralíu. Brönnimann er aðalstjórnandi Þjóðarhljómsveitarinnar í Kólumbíu en auk þess er hann listrænn stjórnandi norska kammerhópsins BIT20 og starfar reglulega með hljómsveitum á borð við London Sinfonietta, Skosku kammerhljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Lundúna.