EN

  • sinfo_harpa_stor

15. júní 2012

Dagskrá næsta starfsárs kynnt

Starfsárið 2012-2013

Það eru spennandi tímar framundan hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands á öðru starfsári í nýju tónleikahúsi. Fyrsta starfsár okkar í Hörpu fór fram úr björtustu vonum og framundan er fjölbreytt og forvitnileg dagskrá þar sem fjöldi framúrskarandi hljómsveitarstjóra og einleikara kemur fram með hljómsveitinni. Meðal þeirra má nefna bandarísku söngdívuna Deborah Voigt, breska píanistann Steven Osborne og sænska klarinettuleikarann Martin Fröst. Þá kemur fjöldi íslenskra einleikara og einsöngvara fram með hljómsveitinni, m.a. Víkingur Heiðar Ólafsson, Auður Hafsteinsdóttir, Bjarni Thor Kristinsson og Hanna Dóra Sturludóttir.

Efnisskrá starfsársins er fjölbreytt og einkennist af úrvali sinfónía, stórum kórverkum, balletttónlist og glæstum einleikskonsertum. Lundúnarsinfónía Haydns, Sveitasinfónía Beethovens, Draumórasinfónía Berliozar, 4. sinfónía Nielsens ásamt Hnotubrjótnum, Vorblóti Stravinskíjs, Rómeó og Júlíu, Carmina Burana, Messíasi, Chichester Psalms og Kristi á Olíufjallinu sýna svo ekki verður um villst að Sinfóníuhljómsveit Íslands flytur fjölbreytta og áhugaverða tónlist á næsta starfsári.

Af öðrum verkum á starfsárinu má nefna Pláneturnar eftir Holst í flutningi Ungsveitarinnar, Fiðlukonsert eftir Hafliða Hallgrímsson sem fluttur verður í fyrsta sinn á Íslandi og Mozart-aríur í flutningi Sally Matthews. Ný og framsækin tónlist skipar veglegan sess, meðal annars á Airwaves, Myrkum músíkdögum og á Tectonics-tónlistarhátíðinni undir stjórn Ilans Volkov. Flutt verður tónlist úr Star Wars-myndunum og töfraveröld Disneys birtist á glæsilegum tónleikum í flutningi úrvalsliðs íslenskra söngvara. Fjölbreytt dagskrá verður fyrir börn og fjölskyldur þeirra í tónleikaröðinni Litli tónsprotinn þar sem Trúðurinn Barbara fer á kostum og kynnir töfra tónlistarinnar fyrir ungum hlustendum á öllum aldri.

Á nýjum nótum eru hálftíma langir tónleikar þar sem spennandi verk 20. aldarinnar eru leikin í framhaldi af áskriftartónleikum. Tónleikarnir hefjast klukkan 22:00 og eru tónleikagestum sinfóníutónleika sama kvölds að kostnaðarlausu en einnig er hægt að kaupa staka miða á viðburðinn.

Aðalhljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi Sinfóníunnar, Ilan Volkov, er einn áhugaverðasti og eftirsóttasti hljómsveitarstjóri sinnar kynslóðar og hefur hlotið mikið lof fyrir störf sín víða um heim undanfarin ár.

Endurnýjun áskrifta er hafin í miðasölu Hörpu eða í síma 528 5050. Einnig er hægt að endurnýja á vef hljómsveitarinnar sinfonia.is. Sala nýrra korta á tónleikaraðir hefst 18. júní og sala nýrra Regnbogakorta hefst 16. ágúst.