EN

  • ungsveit_listi

28. september 2012

Ungsveitin 30. september kl. 14

Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands heldur tónleika í Eldborg sunnudaginn 30. september kl.14

Undanfarin þrjú ár hafa tæplega hundrað ungmenni úr tónlistarskólum landsins safnast saman undir merkjum Sinfóníuhljómsveitarinnar og náð undraverðum árangri undir leiðsögn framúrskarandi hljóðfæraleikara og stjórnenda.

Á tónleikunum 30 september flytja þau Pláneturnar eftir Gustav Holst sem er eitt vinsælasta og glæsilegasta hljómsveitarverk 20. aldarinnar. Sjö reikistjörnum er lýst í áhrifamiklu tón máli, allt frá upphafsþættinum Stríðsboðanum Mars til lokaþáttarins, Hins dulræna Neptúnusar, þar sem raddir Stúlknakórs Reykjavíkur óma eins og úr órafjarlægð.

Baldur Brönnimann er hljómsveitarstjóri og er hann tónleikagestum að góðu kunnur en hann stjórnar Ungsveitinni nú í annað sinn. Brönnimann hefur áralanga reynslu af því að starfa með ungu fólki. Hann stofnaði Æskulýðshljómsveit Kólumbíu og hefur á skömmum tíma komið þeirri sveit í hóp bestu æskuhljómsveita heims.

Ungsveitin var tilnefnd sem Bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum í flokki sígildrar samtímatónlistar og djass.

Þetta eru tónleikar sem áhugamenn um framtíð íslenskrar tónlistar láta sig ekki vanta á.

Miðasala í Hörpu, s. 528 -5050 og á www.sinfonia.is

Nemendur fá 50% afslátt. Ekki er hægt að bóka afslátt á netinu.