EN

  • ungir_listi

6. desember 2012

Sigurvegarar í einleikskeppni SÍ og LHÍ

Á hverju ári fer fram keppni ungra einleikara sem Sinfóníuhljómsveit Íslands og Listaháskóla Íslands stendur að. Keppnin er opin nemendum á háskólastigi, óháð því hvaða skóla þeir sækja, og fá þeir hlutskörpustu að leika einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Einleikarakeppnin fór fram  27. október síðast liðinn. Alls tóku 10 nemendur þátt í keppninni, sex söngvarar og fjórir hljóðfæraleikarar. Hver einleikari flytur hálftíma dagskrá með verkum af ólíkum toga en dómnefnd keppninnar skipar tónlistarfólk í fremstu röð. Keppendur stóðu sig allir með prýði, en sex manna dómnefnd valdi fjóra sigurvegara til að koma fram með Sinfóníuhljómsveitinni á tónleikum þann 15. janúar 2013. Þau er: Einar Bjartur Egilsson, píanóleikari, Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir, sellóleikari, Sólveig Steinþórsdóttir, fiðluleikari og Unnsteinn Árnason, söngvari.

Dómnefnd skipuðu: Karólína Eiríksdóttir, formaður, Bernharður Wilkinson, hljómsveitarstjóri,  Sigrún Hjálmtýsdóttir, söngvari, Auður Hafsteinsdóttir, fiðluleikari, Bryndís Halla Gylfadóttir, og Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanóleikari. Nefndin er skipuð af rektor Listaháskólans í samráði við forráðamenn Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Tónleikarnir fara fram í Eldborgarsal Hörpu þriðjudaginn 15. janúar kl.19.30. Miðasala er hafin í miðasölu Hörpu og á sinfonia.is og harpa.is