EN

  • einar_cd_promo_231

11. desember 2012

Nýr diskur tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna

Einar Jóhannesson - Sinfóníuhljómsveit Íslands: Klarínettukonsertar

Út er kominn nýr hljómdiskur með Sinfóníuhljómsveit Íslands þar sem Einar Jóhannesson leikur fjóra klarínettukonserta með hljómsveitinni. Diskurinn er einstakur vitnisburður um einn af allra bestu listamönnum þjóðarinnar í einleikshlutverki í verkum eftir Mozart, Weber, Debussy og Jón Nordal.

Diskurinn er tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokki sígildrar- og samtímatónlistar. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Einar Jóhannesson eru einnig tilnefnd sem flytjandi ársins í sama flokki.

Einar Jóhannesson hefur skipað sér sess á ferli sínum sem einn fremsti flytjandi klassískrar tónlistar á Íslandi. Hann hefur verið 1. klarínettuleikari Sinfóníuhljómsveitarinnar síðan 1980, stofnfélagi í Blásarakvintett Reykjavíkur og hefur skapað sér gott orðspor sem frammúrskarandi flytjandi á alþjóðlegum vettvangi.
Sinfóníuhljómsveit Íslands gefur diskinn út í samstarfi við útgáfufélagið Smekkleysu og er hann hluti af útgáfuröð sem endurspeglar mikilvæg augnablik helstu einleikara úr röðum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Fyrsti diskur raðarinnar var helgaður Guðnýju Guðmundsdóttur.