EN

  • Maxi-0636

21. desember 2012

Maxímús Músíkús í enskri útgáfu á heimsvísu

Fyrsta bókin í bókaröðinni um músíkölsku sinfóníumúsina hann Maxa, „Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina“ er nú komin út í enskri útgáfu með dreifingu á heimsvísu.

Það er tónlistarforlagið Music Word Media í New York sem gefur út „Maximus Musicus visits the orchestra“, bæði á prenti með  geisladiski meðfylgjandi og á rafbók fyrir Apple tæki með snertiskjá enda gefur forlagið allar sínar bækur út á þessum tveimur miðlum.

Sinfóníuhljómsveitin getur verið stolt af útgáfu bókarinnar sem nú er fáanleg á ensku hvarvetna í heiminum ásamt geisladiski með leik hljómsveitarinnar. Það er Stella Arman sem les söguna um Maxa sem er eftir 1. flautuleikara hljómsveitarinnar, Hallfríði Ólafsdóttur, í enskri þýðingu Daða Kolbeinssonar, 1. óbóleikara sveitarinnar. Skemmtilegar og líflegar myndskreytingarnar eru svo eftir Þórarin Má Baldursson, víóluleikara í SÍ.

Á geisladisknum og í rafbókinni má heyra söguna lesna ásamt þeim umhverfishljóðum og brotum úr tónlist sem þar koma við sögu og á geisladisknum má þar á eftir heyra alla tónlistina leikna í heild sinni af hljómsveitinni. Tónverkin eru Bolero eftir Ravel, brot úr 5. sinfóníu Beethovens, Hátíðargjall eftir Copland og Á Sprengisandi eftir Sigvalda Kaldalóns að ógleymdu Laginu hans Maxa, Maxi's Song, í flutningi sópransöngkonunnar Rannveigar Káradóttur og Músabandsins.

Birst hefur dómur um bókina á Amazon bóksölusíðunni. Þar segir greinarhöfundur að hann geti ekki lofað bókina nógsamlega og vildi óska að slík bók hefði verið til þegar hann var lítill. Einnig er myndskreytingum Þórarins hrósað og eins því að lagið hans Maxa fylgi með á nótum.

Á myndinni sést Maxi afhenda Sigurði Nordal framkvæmdastjórar SÍ eintak af nýju bókinni. Með músinni eru höfundar bókarinnar þau Hallfríður og Þórarinn Már.

Dómur Amazon



Panta bókina frá útgefanda