EN

  • nordic_stor

8. febrúar 2013

Sinfónían leikur í Kennedy Center

Sinfóníuhljómsveit Íslands er boðið á Norrænu menningarhátíðina Nordic Cool sem Kennedy Center í Washington DC stendur fyrir dagana 19. febrúar til 17. mars 2013.

Sinfóníuhljómsveit Íslands flýgur vestur um haf með spennandi efnisskrá í farteskinu. Af fjórum tónverkum efnisskrárinnar eru tvö íslensk tónverk, nýtt verk eftir Hlyn Aðils Vilmarsson og AERIALITY eftir Önnu Þorvaldsdóttur sem frumflutt var á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2011. Anna Þorvaldsdóttir hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs nú í vor fyrir verkið Dreymi sem einnig var frumflutt af Sinfóníuhljómsveitinni. Efnisskrána fullkomna svo tvö skandínavísk tónverk, píanókonsert í a-moll eftir Edvard Grieg og Lemminkäinen-svítan op. 22 eftir Jean Sibelius.

Bandaríski píanóleikarinn Garrick Ohlsson vann til fyrstu verðlauna í Chopin-píanókeppninni árið 1970. Síðan þá hefur hann öðlast alþjóðlegan sess sem einleikari og verið talinn einn fremsti túlkandi tónlistar Chopins. Þessi fyrrum nemandi Claudios Arrau hefur yfir áttatíu einleikskonserta á valdi sínu, allt frá Haydn og Mozart til verka 21. aldarinnar.

Tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands eru á dagskrá hátíðarinnar í Kennedy Center 4. mars undir stjórn Ilans Volkov aðalhljómsveitarstjóra SÍ. Hljómsveitin mun flytja dagskrána fyrir tónleikaförina á tónleikum í Hörpu þriðjudaginn 26. febrúar.

Sinfóníuhljómsveit Íslands verður einnig með skólatónleika í Kennedy Center þar sem Maxímús Músíkús leikur á alls oddi. Enginn vafi er á því að Maxi á eftir að heilla alla nærstadda upp úr skónum.

Maxímús Músíkús er án efa frægasta tónlistarmús Íslands og þó víðar væri leitað en bækurnar um hann hafa notið gífurlegra vinsælda meðal íslenskra barna og eru að fara sigurför um heiminn en þær eru fáanlegar í Þýskalandi, Færeyjum, Kóreu og á ensku um allan heim. Höfundur og teiknari bókanna, þau Hallfríður Ólafsdóttir og Þórarinn Már Baldursson eru bæði meðlimir Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

 

Frekari upplýsingar af vef Menntamálaráðuneytisins:

Stærsta norræna menningarhátíðin, sem haldin hefur verið utan Norðurlandanna, Nordic Cool 2013  verður sett í Kennedy Center í Washington þriðjudaginn 19. febrúar og stendur til 17. mars. Rúmlega 700 listamenn frá öllum Norðurlöndunum auk fjölda matreiðslumanna munu taka þátt í hátíðinni.

Kennedy Center í Washington ber ábyrgð á vali dagskrárliða og listamanna og sér um framkvæmd hátíðarinnar. Til að auka breiddina í dagskránni var ákveðið að hafa einnig umræður og kynningar á grunngildum og stjórnmálum á Norðurlöndum, t.d. um norrænt jafnrétti, sjálfbæra velferð og grænan hagvöxt.

Kennedy Center er ein virtasta og öflugasta menningarstofnun Bandaríkjanna og þar eru leikhús, tónleikasalir og danssvið, sem henta stórum og smáum viðburðum. Höfuðáhersla hátíðarinnar verður á tónlist, leiklist og dans. Á göngum og í ýmsum rýmum hússins verður komið fyrir norrænni myndlist, norrænni hönnunarsýningu og aðstaða verður fyrir tölvuleiki og ýmsa fræðslu fyrir börn, sem Kennedy Center leggur mikla áherslu á. Einnig verða á hátíðinni sýndar norrænar kvikmyndir og bókmenntir Norðurlandanna kynntar með margvíslegum hætti. Á veitingastöðum hússins munu matreiðslumenn frá Norðurlöndunum kynna matarmenningu heimalanda sinna.

Fulltrúar Íslands verða m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslenski dansflokkurinn, leikhópurinn Vesturport, Víkingur Heiðar Ólafsson píanóleikari, hljómsveit Sunnu Gunnlaugsdóttur djasspíanóleikara, Rúrí og Duo Harpverk.

Norræna menningarhátíðin Nordic Cool 2013  varð til í samstarfi John F. Kennedy listamiðstöðvarinnar við stjórnvöld á Norðurlöndum, Norrænu ráðherranefndina, norrænu sendiráðin í Washington og ýmsar stofnanir á sviði menningar og lista á Norðurlöndunum, þar á meðal á Álandseyjum, í Færeyjum og á Grænlandi.