EN

  • nattfataparty_stor

18. febrúar 2013

Skólabörnum boðið í Náttfatapartý

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur uppi metnaðarfullu fræðslustarfi fyrir yngri kynslóðina og liður í því eru árlegir skólatónleikar.

Dagana 20. og 21. febrúar heldur Sinfóníuhljómsveitin ferna skólatónleika fyrir nemendur í 3. - 7. bekk grunnskóla. Boðið veður í Náttfatapatý að þessu sinni og eins í öllum náttfatapartíum þarf góða draugasögu, eitthvað til að halda fólki vakandi, allavega í smástund. Slíkir spennutónar slæðast með á þessa tónleika en einnig tónlist sem kveður niður allan draugagang. Með titillagi myndarinnar Ghostbusters kveður Sinfóníuhljómsveit Íslands niður alla móra og skottur sem leynast í Hörpu. Sigurður Flosason vaggar okkur í svefn með vöggulaginu Sofðu unga ástin mín og fer með okkur í þjóðsagnarkennt ferðalag með flutningi lagsins Móðir mín í kví, kví, þar sem hann galdrar fram ótrúlega töfra úr seiðmagnaða hljóðfærinu sínu.

Kynnir á tónleikunum er Halldóra Geirharðsdóttir leikkona en hún hefur einstakt lag á að opna heim tónlistarinnar fyrir börnum og um tónsprotann heldur Bernharður Wilkinson.