EN

  • barnastund_maxi_stor

19. febrúar 2013

Maxi í Berlin og Washington

Nú á laugardag, 23. febrúar, verður nýjasta sagan um Maxa, Maxímús Músíkús bjargar ballettinum, flutt í einu frægasta tónleikahúsi heims, Fílharmóníunni í Berlín. Það er Fílharmóníuhljómsveit Berlínar, Berliner Philharmoniker, sem bókaði músina til þess að koma og skemmta Berlínarbúum og fékk einn af kammerhópunum sem starfa innan hljómsveitarinnar, Ensemble Berlin, til þess að leika tónlistina í nýrri kammerútsetningu sem gerð var sérstaklega af þessu tilefni. Miðar á tónleikana seldust upp á tveimur tímum.

Allar bækurnar um Maxa hafa komið út á þýsku hjá bókadeild Schott Music sem er eitt allra stærsta útgáfu- og dreifingarfyrirtæki heims á sviði tónlistarbóka og nótnahefta.

Viku seinna heldur Maxímús til Bandaríkjanna til þess að koma fram á Nordic Cool hátíðinni í Kennedy Center í Washington ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Öll sinfóníuhljómsveitin okkar fær að fylgja Maxa í þessa ferð og flytja fyrstu söguna hans, Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina, á skólatónleikum í stóra tónleikasalnum í Kennedy Center, mánudaginn 4. mars, auk þess að leika íslensk og norræn verk á kvöldtónleikum sama dag.

Sagan af Maxa, Maximus Musicus Visits the Orchestra, kom nýverið út á ensku hjá útgáfufyrirtækinu Music Word Media sem staðsett er í New York, bæði í prentaðri útgáfu og á rafbók fyrir spjaldtölvur þar sem hægt er að hlusta á söguna ásamt tónlistinni, horfa á myndirnar og sjá orðin lýsast upp um leið og lesið er.

Ferðalagi Maxa lýkur með upplestri á ævintýrum hans í aðal barnabókabúðinni í New York, Bankstreet Bookstore, laugardaginn 9. mars og Maxi ætlar líka að vera viðstaddur þar, hitta börn og árita bækur.