EN

  • nadja_stor

20. mars 2013

Nadja Michael syngur í stað Voigt á tónleikum 22. mars

Bandaríska sópransöngkonan Deborah Voigt hefur afboðað komu sína á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands föstudaginn 22. mars vegna veikinda. Í hennar stað syngur þýska söngkonan Nadja Michael sem er tíður gestur í frægustu óperuhúsum heims og margverðlaunuð fyrir túlkun sína á Salóme sem er á efnisskrá tónleikanna.

Í febrúar 2007 söng hún hlutverk Salóme í La Scala óperuhúsinu í Mílanó við frábærar undirtektir og fylgdi því eftir í áhrifamikilli uppfærslu á Salóme við Konunglega óperuhúsið í Covent Garden í London árið 2008. Nadja Michael hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir margvísleg óperuhlutverk og listrænan flutning á ferli sínum. Sérlega eftirtektarverð voru verðlaunin Die Goldene Stimmgabel von Arte sem hún fékk fyrir túlkun sína á Salóme árið 2008 og tilnefning til South Bank Show ITV verðlaunanna árið 2009 í flokknum „Ópera“ fyrir Salóme í uppfærslu Konunglega óperuhússins í London.

Þrátt fyrir þessar ófyrirsjáanlegu breytingar er efnisskrá tónleikanna að öllu óbreytt og mikill fengur að fá Michael hingað til lands sem er ein helsta stjarnan í óperuheiminum í dag.

Þeir sem óska eftir að skipta eða skila miðum sínum geta haft samband við miðasölu Hörpu.