EN

  • ccp_stor

23. apríl 2013

Sinfónían spilar tónlist Eve Online

OPNUNARTÓNLEIKAR FANFEST HÁTÍÐAR CCP Í HÖRPU

Tölvuleikur CCP, EVE Online, og sá sýndarheimur sem byggður hefur verið upp í leiknum fagnar tíu ára afmæli sínu í ár. Tímamótunum verður fagnað á tíundu Fanfest hátíðinni sem fram fer í Hörpu dagana 24.-27. apríl þar sem einn af hápunktunum eru opnunartónleikar Sinfóníuhljómsveit Íslands sem leika mun tónlist úr leiknum miðvikudaginn 24. apríl kl.. 21.00 í Eldborgarsal Hörpu.
 
Þetta verður ekki einungis í fyrsta sinn sem tónlistin úr EVE verður spiluð af sinfóníuhljómsveit, heldur verður þetta einnig fyrsta skipti sem Sinfóníuhljómsveit Íslands mun spila tónlist úr tölvuleik.
 
Tónleikarnir verða teknir upp í hljóði og mynd og mun upptakan fylgja sérstakri viðhafnarútgáfu af leiknum sem koma mun út síðar í ár. Tónleikunum er einnig sjónvarpað á netinu gegnum EVE TV til tugþúsunda spilara leiksins.
 
Tónlist leiksins fær nýtt líf
Jón Hallur Haraldsson sem starfað hefur hjá CCP frá árinu 2000 skrifaði upprunalegu tónlistina fyrir EVE Online sem flutt verður á tónleikunum. Tónlistin er að mestu frá árunum 2002-2009, en einnig stendur til að flytja nýja tónlist sem koma mun síðar í leikinn. Að öðrum eiginleikum EVE Online ólöstuðum hefur tónlistin í honum ávallt verið ein af sterkustu einkennum hans. Tónlist Jóns Halls hefur verið lýst sem sterkri skírskotun í sveimtónlist níunda áratugarins – einskonar blöndu af Jean-Michel Jarre og Vangelis. Mikið af þessari tónlsit er orðin sígild hjá þeim hundruðu þúsunda sem spila leikinn, en í dag eru áskrifendur EVE Online rúmlega 500.000 manns.
 
Tónskáldið Kristján Guðjónsson sem setti verk Jón Halls upp fyrir sinfóníuhljómsveit. Í gegnum nákvæma nálgun á tónlistinni tekst Kristjáni að færa hvert lag í sinfóníubúning sem er nógu líkur upprunalegu útgáfunni til að kunnugir þekki það, en notast á sama tíma við þau tónundur sem aðeins sinfóníuhljómsveit getur framkvæmt.

Fanfest
Frá árinu 2004 hefur CCP haldið árlega Fanfest hátíð sína í Reykjavíkurborg. Viðburðurinn hefur vaxið ár frá ári og fer í ár fram í öllum rýmum Hörpu. Dagskrá Fanfest er fjölbreytt og samanstendur m.a. af sýningum, fyrirlestrum og óvæntum uppákomum sem eiga engan sinn líkan. CCP fagnar tíu ára afmæli EVE Online á Fanfest í ár. Leikmenn EVE Online hvaðanæva að úr heiminum sækja Fanfest hátíðina heim – sem og hátt í eitt hundrað erlendir blaðamenn , sem og starfsmenn tölvuleikja- og afþreyingariðnaðarins. 

Miðasala
Uppselt er á Fanfest hátíðina sjálfa, en enn eru til aðgöngumiðar á bæði opnunartónleikana og lokahófið. Miðaverð á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands er 3.900 krónur í A svæði og 2.900 krónur í B svæði. Miðasala fer fram í Hörpu, á sinfonia.is, harpa.is og midi.is.