EN

25. maí 2013

Stöður tónleika- og tónlistarstjóra lausar til umsóknar

Sinfóníuhljómsveit Íslands auglýsir stöður tónleikastjóra og tónlistarstjóra lausar til umsóknar frá og með 1. september 2013

TÓNLEIKASTJÓRI ber ábyrgð á skipulagningu tónleikahalds hljómsveitarinnar og framkvæmd tónleika. Hann sér um samninga við umboðsskrifstofur og annast samningagerð við listamenn og þá sem koma að tónleikum. Hann hefur yfirumsjón með sviðsmálum og öðrum praktískum málum vegna tónleikahalds á sviði og í sal. Tónleikastjóri hefur yfirumsjón með skipulagningu og framkvæmd tónleikaferða. Hann vinnur náið með tónlistarstjóra og listrænum stjórnanda að mótun tónleikadagskrár. Tónleikastjóri heyrir beint undir framkvæmdastjóra. 

Menntunar- og hæfniskröfur: Krafist er háskólamenntunar, sem nýtist í starfi og æskilegt er að umsækjendur hafi reynslu og þekkingu á starfsemi sinfóníuhljómsveita. Reynsla af stjórnunarstörfum og/eða verkefnastjórnun er nauðsynleg. Krafist er góðrar íslensku- og enskukunnáttu og þekking á tónlist og íslensku tónlistarlífi er jafnframt mikilvæg. Áhersla er lögð á frumkvæði, skipulagshæfni og fylgni til framkvæmda.


TÓNLISTARSTJÓRI leggur drög að dagskrá komandi starfsára Sinfóníu-hljómsveitarinnar og gerir tillögur um hljómsveitarstjóra og aðra listamenn, sem koma fram með hljómsveitinni. Hann annast samskipti við umboðsskrifstofur, bókar listamenn og gerir drög að verkefnavali. Tónlistarstjóri starfar náið með listrænum stjórnanda við að framfylgja listrænni stefnu Sinfóníuhljómsveitarinnar. Hann kemur að ritun fræðsluefnis og öðrum textaskrifum, styður við fræðslustarf hljómsveitarinnar ásamt því að taka þátt í kynningarstarfi með ýmsum hætti. Tónlistarstjóri heyrir beint undir framkvæmdastjóra.

Menntunar- og hæfniskröfur: Skilyrði er að umsækjendur hafi yfirgripsmikla þekkingu á sígildri tónlist, nútímatónlist og tónlistarsögu. Góð þekking á íslensku tónlistarfólki og tónskáldum er nauðsynleg, en þekking á alþjóðlegum tónlistarmarkaði er kostur. Nauðsynlegt er að umsækendur hafi mjög góð tök á rituðu og töluðu íslensku máli og góða tungumálakunnáttu almennt, einkum ensku. Krafist er háskólaprófs í tónlist og/eða á fræðasviðum tónlistar. Áhersla er lögð á frumkvæði, skipulagshæfni og fylgni til framkvæmda.


Umsóknarfrestur er til og með 10. júní nk. Vinsamlega athugið að fyrirspurnum verður eingöngu svarað hjá STRÁ Starfsráðningum ehf. 

Guðný Harðardóttir, gudny@stra.is veitir nánari upplýsingar, en viðtalstími er frá kl. 13-15, á meðan á umsóknarferli stendur. Vinsamlega sendið starfsferilskrár til stra@stra.is ásamt viðeigandi prófgögnum. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands er ein stærsta menningarstofnun landsins með um 100 manna starfslið. Hljómsveitin heldur úti fjölbreytilegri tónleikadagskrá, hljóðritar til innlendrar og erlendrar útgáfu, fer í tónleikaferðir innanlands og utan, auk þess sem hún stendur fyrir viðamiklu fræðslustarfi fyrir börn og fullorðna. Starfsstöð Sinfóníuhljómsveitarinnar er í tónlistarhúsinu Hörpu.