EN

  • Kitajenko_stor

13. júní 2013

Nýtt starfsár 2013-2014 kynnt

Fjölbreytt og glæsileg dagskrá á næsta starfsári Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Starfsárið 2013-2014

Dagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands á næsta starfsári 2013-2014 er fjölbreytt og glæsileg. Boðið er upp á spennandi blöndu af sígildum hljómsveitarverkum, litríkum einleikskonsertum, léttri klassík, nýrri tónlist ásamt barna- og fjölskyldutónleikum.

Hljómsveitin býður marga stjórnendur velkomna, sem allir eiga það sameiginlegt að vera í fremstu röð, þeirra á meðal Jun Märkl, Andrew Manze, Christian Mandeal og Leo Hussein. Sjálfur Dmitri Kitajenko hefur starfsárið með tveimur rússneskum perlum sem hann túlkar með óviðjafnanlegum hætti. Auk þess er sérstök ánægja að taka á móti hljómsveitarstjórum sem hafa áður stjórnað Sinfóníuhljómsveitinni, eins og Ilan Volkov aðalhljómsveitarstjóra, Eivind Aadland, Matthew Halls og Markus Poschner. Starfsárið er svo fullkomnað með okkar ástsælu meisturum, Vladimir Ashkenazy og Gennady Rozhdestvensky, sem hvor um sig mun stjórna hrífandi verkum á borð við fyrstu sinfóníu Brahms og tíundu sinfóníu Sjostakovitsj.

Fjöldi innlendra og erlendra einleikar kemur fram með hljómsveitinni á nýju starfsári; Ilya Gringolts, Jonathan Biss, Colin Currie, Jonathan Gandelsman, Víkingur Heiðar Ólafsson og Elfa Rún Kristinsdóttir svo aðeins fáir séu nefndir. Einleikarar úr röðum Sinfóníuhljómsveitarinnar eru Sif Margrét Tulinius og Hallfríður Ólafsdóttir. Einnig má nefna glæsilega einsöngvara á borð við Allison Bell, Ólaf Kjartan Sigurðarson, Hallveigu Rúnarsóttur og Hönnu Dóru Sturludóttur og Gissur Pál Gissurarson.

Einn af hápunktum starfsársins er fyrsta heimsókn píanóleikarans Jorge Luis Prats hingað til lands, en hann er goðsögn í tónlistarheiminum. Hann leikur hinn magnaða fyrsta píanókonsert Tsjajkovskíjs. Einnig má nefna komu japanska fiðlusnillingsins Midori en hún mun leika hinn ódauðlega fiðlukonsert í e-moll eftir Mendelssohn.

Sinfóníuhljómsveit Íslands lætur sér fátt óviðkomandi á sviði tónlistar. Haldnir verða sérstakir tónleikar tileinkaðir kvikmyndtónlist sem nefnast Ástarsögur af hvíta tjaldinu og á Airwaves-hátíðinni liggja leiðir Ólafs Arnalds og Sinfóníunnar saman í fyrsta sinn. Þungarokksveitin Skálmöld fer einnig á svið með hljómsveitinni í nóvember á sannkölluðum stórtónleikum. Aðventutónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar eru með hátíðlegustu tónleikum ársins og nýju ári er fagnað á glæsilegum Vínartónleikum sem hafa verið vinsælustu tónleikar hljómsveitarinnar ár eftir ár. Tectonics tónlistarhátíð Sinfóníunnar undir stjórn Ilans Volkov aðalhljómsveitarstjóra er einnig á sínum stað.

Í áskriftarröð Litla tónsprotans er boðið upp á skemmtun og fróðleik fyrir alla fjölskylduna. Ævintýrasöngleikurinn Skilaboðaskjóðan er á dagskrá í september og Maxímús Músíkús kemur í heimsókn með nýtt ævintýri á vormánuðum. Í fjölskylduröðinni er að finna marga skemmtilega viðburði sem vekja forvitni og áhuga þeirra sem yngri eru.

Endurnýjun áskrifta og sala nýrra korta á tónleikaraðir næsta starfsárs hefst 13. júní í miðasölu í Hörpu. Sala nýrra Regnbogakorta hefst 26. júní en almenn lausamiðasala hefst 23. ágúst.