EN

13. desember 2013

SÍ tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna

Tilnefningar Íslensku tónlistarverðlaunanna 2013 hafa nú verið kynntar og er Sinfóníuhljómsveit Íslands tilnefnd í tveimur flokkum í ár:


Tónlistarviðburður ársins:
Ólafur Arnalds og Sinfóníuhljómsveit Íslands – For Now I am Winter

Leiðir Ólafs Arnalds og Sinfóníuhljómsveitar Íslands lágu saman í fyrsta sinn á tónleikum Iceland Airwaves tónlistarhátíðarinnar í Elborgarsal Hörpu í lok nóvember sl. Innhverf og einlæg tónlist Ólafs naut sín til fullnustu fyrir fullum sal áheyrenda í Eldborg og fegurðin í kyrrðinni ríkti ofar öllu.

Hljómplata ársins – Sígild- og samtímatónlist:
Vincent d´Indy - Orchestral Works 5 - Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Rumons Gamba

Samstarf Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Rumons Gamba elur af sér fimmta hljómdiskinn með verkum franska síð-rómantíkersins Vincent d´Indy. Frábær flutningur á áhugaverðri tónlist d´Indy og hljóðupptaka til fyrirmyndar.

Aðrar tilnefningar sem tengjast hljómsveitinni eru fyrir tónverk sem flutt voru á tónleikum á Sinfóníuhljómsveitar Íslands: 

Tónverk ársins – Sígild- og samtímatónlist
Lokalagið úr kvikmyndinni Í draumi sérhvers manns eftir Atla Ingólfsson, frumflutt af Víkingi Heiðari Ólafssyni og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Ilans Volkov á Tectonics-tónlistarhátíðinni 2013.

Gangverk englanna eftir Gunnar Andreas Kristinsson, frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Ilans Volkovs á Myrkum músíkdögum 2013.Höfuðskepnur eftir Hauk Tómasson. Frumflutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn John Storgårds, í nóvember árið 2012.

Nostalgia eftir Pál Ragnar Pálsson. Verkið var frumflutt á Myrkum músíkdögum 2013 af Unu Sveinbjarnardóttur og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Ilans Volkovs.