EN

6. október 2009

Íslensk tónlistarsaga í Harvard háskóla

arni_heimirÁrni Heimir Ingólfsson, tónlistarstjóri SÍ, hélt fyrirlestur um íslenska tónlist við Harvard-háskóla laugardaginn 3. október síðastliðinn. Fyrirlesturinn bar yfirskriftina „Echoes from the Periphery: Rask 98, Modal Change, and Oral Transmission in 17th-century Iceland“ og var hluti ráðstefnu sem haldin var til heiðurs Thomas Kelly, sem er prófessor í miðaldatónlist við Harvard.

Fimmtán fræðimönnum víða að úr heiminum var sérstaklega boðið að halda erindi á ráðstefnunni og meðal þeirra voru prófessorar við marga helstu háskóla heims, t.d. Yale, Columbia, Sorbonne og Cambridge.

Í fyrirlestrinum reifaði Árni Heimir sögu handritsins Rask 98, sem einnig er nefnt Melódía og er söngvasafn frá um 1660, rakti uppruna margra laganna til evrópskra heimilda og fjallaði um þær breytingar sem urðu á tóntegundum laganna eftir að þau urðu hluti af íslenskri söngmenningu.

Þá má geta þess að hljómdiskur Kammerkórsins Carminu, sem Árni Heimir stjórnar og þar sem flutt er tónlist úr handritinu Rask 98, er einn af diskum mánaðarins í breska blaðinu Gramophone um þessar mundir.