EN

26. október 2009

Martin Fröst - staðarlistamaður SÍ

Sænski  klarínettuleikarinn Martin Fröst er væntanlegur til Íslands sem fyrsti staðarlistamaður Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Hann mun hafa í nógu að snúast næstu daga, því auk þess að leika klarínettukonsert Mozarts á tónelikum SÍ fimmtudagskvöldið 29. október leikur hann á framhaldsskólatónleikum fyrir nemendur Menntaskólans við Hamrahlíð, heldur meistaranámskeið fyrir klarínettnemendur á vegum Tónlistarskólans í Reykjavík og Klarínettuleikarafélags Íslands, og heldur tónleika í Salnum ásamt Víkingi Heiðari Ólafssyni píanóleikara.

Það má því með sanni segja að tilganginum með tilnefningu staðarlistamanns sé náð, en hann er einmitt sá að gefa færustu listamönnum tækifæri til að skilja meira eftir sig hjá landi og þjóð en minningar um eina kvöldstund í Háskólabíói.

Martin Fröst mun koma aftur til landsins í lok apríl og mun hann leika með Sinfóníuhljómsveitinni á tónleikum 29. apríl.