EN

10. október 2014

Sinfóníuhljómsveitin leikur í Hnotubrjótnum

St. Petersburg Festival Ballet og Sinfóníuhljómsveit Íslands

Á aðventunni mun rússneski dansflokkurinn St. Petersburg Festival Ballet snúa aftur í Hörpu og sýna Hnotubrjótinn, við tónlist Tsjajkovskíjs sem flutt verður af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn hljómsveitarstjórans Sergey Fedoseev.

Sýningarnar verða haldnar 21. 22 og 23. nóvember í Eldborg. Ballettsýningar sem þessar eru mikilvægur hluti af jóladagskrá í mörgum tónlistarhúsum heims.

Á aðfangadagskvöld fær María fallegan hnotubrjót að gjöf frá hinum dularfulla Drosselmeyer. Atburðarásin tekur óvænta stefnu þegar leikföngin undir jólatrénu lifna við og inn koma mýs í einkennisbúningum. Hnotubrjóturinn breytist í prins og leiðir Maríu inn í ævintýraland þar sem ýmislegt óvænt gerist. Tónlist Tsjajkovskíjs skapar töfrandi jólastemningu sem er ein sú eftirminnilegasta ballett-tónlist sem samin hefur verið. Í verkinu eru margar fallegar laglínur sem flestir þekkja vel.

St. Petersburg Festival Ballet færir okkur heildstæða danssýningu, prýdda glæsilegum búningum og sviðsmynd. Danshöfundur er  Marius Petipa en búninga og leikmynd hannar Vyacheslav Okunev. Flokkurinn samanstendur af fremstu listdönsurum St. Petersburg Ballet og dönsurum úr úrvals dansflokkum sem viðhalda hefðum St. Petersburg Ballet. Aðaldansararnir hafa unnið til alþjóðlegra verðlauna en flokkurinn hefur ferðast til fjölmargra Evrópulanda frá því hann var stofnaður árið 2007.

Kaupa miða