EN

20. nóvember 2014

Aeriality kemur út hjá Deutsche Grammophone

Út er kominn nýr hljómdiskur hjá hinni virtu útgáfu Deutsche Grammophone með verkum íslenska tónskáldsins Önnu Þorvaldsdóttur. Á disknum er að finna 6 verk hennar en meðal þeirra er verkið Aeriality sem samið var fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og frumflutt á tónleikum hennar í nóvember 2011. SÍ lét verkið síðar inn á hljóðrit sem nú er að finna á nýja hljómdisknum sem heitir Aerial. Þetta er í fyrsta sinn sem upptaka með Sinfóníuhljómsveit Íslands kemur út hjá þessu virta útgáfufyrirtæki sem margir þekkja til.

Höfundurinn, Anna Þorvaldsdóttir, sagði eftirfarandi í efnisskrá þegar verkið var frumflutt:

„AERIALITY dansar á mörkum hljómsveitartónlistar og hljóðlistar, en í verkinu fléttast saman lagræn tónefni og þykkir hljóðmassar. Að hluta til samanstendur verkið af þykkum hljómum þar sem öll hljóðfæri hljómsveitarinnar renna saman í eitt og mynda margradda hljóðvegg. Krómatískir hljómar eru stækkaðir með notkun kvarttóna til að skapa þétta hljóðáferð – mörkin á milli einstakra hljóðfæra verða óljós og hljómsveitin verður að þéttum massa. Þessi hljóðheimur kallast á við flæðandi efni þar smærri hljóðfærasamsetningar taka sig saman með tónefni sem ferðast á milli eininga innan hljómsveitarinnar. Við hápunkt verksins byggist upp breiður og óræður hljóðmassi. Hann leysist síðan upp í stutta lagræna hugleiðingu sem blómstrar í skamma stund og skilur eftir sig skugga af sjálfri sér. Orðið AERIALITY vísar til þess að vera í lausu lofti, án haldreipis, og þannig bæði til frelsis og óróleika. Þá vísar orðið einnig til þeirrar yfirsýnar sem fæst úr lofti en ekki frá jörðu. Titill verksins er ennfremur orðaleikur þar sem orðunum aerial og reality er blandað saman til að skapa andstæður; reality ber tilvísun í jörð, hið raunverulega, og aerial í himinn, eða hið ósnertanlega.“

Þess má að lokum geta að verk eftir Önnu, Dreymi, er á dagskrá hljómsveitarinnar á lokatónleikum starfsársins, Höfuðtónskáld og fumkvöðlar,  þar sem dagskráin er helguð aldarafmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi.

Hlusta á Spotify Nánar