EN

19. desember 2014

Sinfónían um hátíðarnar

Næstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands og jafnframt þeir vinsælustu eru Vínartónleikarnir á nýju ári. Þá stíga stórsöngvararnir Dísella Lárusdóttir og Garðar Thor Cortes á svið með hljómsveitinni undir stjórn David Danzmayr. Fernir tónleikar eru á dagskrá dagana 8., 9. og 10. janúar. 

Þangað til er þó hægt að hlýða á hljómsveitina leika við fjölda tækifæra:

Á jóladagskvöld kl. 19:30 er á dagskrá RÚV Hátíðarstund með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Um er að ræða nýjar sjónvarpsupptökur þar sem hljómsveitin leikur hátíðleg jólalög undir stjórn Bernharðs Wilkinsonar. 

Á öðrum degi jóla kl. 15:10 sjónvarpar RÚV upptöku frá tónleikum Sinfóníunnar á Listahátið þar sem Osmo Vänskä stjórnar sinfóníu nr. 3 eftir Gustav Mahler. Einsöngvari á tónleikunum var Jamie Barton. kl. 16:05 verður Jólatónleikum Sinfóníunnar frá 13. desember útvarpað á Rás 1. Aftur er það Bernharður Wilkinson sem stjórnar hljómsveitinni en Barbara trúður leiðir hlustendur um dagskrána.

Sjónvarp Símans sendir notendum sínum jólapakka sem inniheldur meðal annars tvenna tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands. James Bond-veislu og Vínartónleika frá því í janúar á þessu ári.

Sinfóníuhljómsveit Íslands sendir gestum sínum, hlustendum og landsmönnum öllum óskir um gleðileg jól.