EN

5. febrúar 2015

Óperan Peter Grimes á Listahátíð í Reykjavík

Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska óperan

Óperan Peter Grimes eftir enska tónskáldið Benjamin Britten verður frumflutt á Íslandi þann 22. maí næstkomandi á Listahátíð í Reykjavík. Um er ræða umfangsmikla tónleikauppfærslu í Eldborg sem er samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Íslensku óperunnar, Hörpu og Listahátíðar í Reykjavík. Tvær erlendar stórstjörnur úr heimi óperunnar syngja aðalhlutverkin, Stuart Skelton í titilhlutverkinu og Susan Gritton í hlutverki Ellen Orford.   

Peter Grimes er talin til helstu verka óperubókmenntanna og er reglulega á fjölum helstu óperuhúsa heims. Óperan var samin árið 1945 og er byggð á samnefndu harmljóði Georgs Crabbe frá upphafi 19. aldar, þar sem segir frá ógæfu skipstjórans Peter Grimes. Ungir piltar sem Grimes ræður sér til aðstoðar týna lífinu hver á eftir öðrum og er honum í kjölfarið afneitað af bæjarbúum, með átakanlegum afleiðingum. Tónlistin er lagræn og aðgengileg, ýmist gamansöm eða hádramatísk eins og efnið býður upp á.   

Daníel Bjarnason er hljómsveitarstjóri, en með titilhlutverkið fer ástralski tenórinn Stuart Skelton. Skelton var valinn Söngvari ársins á International Opera Awards á síðasta ári. Hann hefur sungið hlutverkið víða á undanförnum árum og hlotið mikið lof fyrir, og var m.a tilnefndur til hinna virtu Olivier-verðlauna fyrir túlkun sína á hlutverkinu við Ensku þjóðaróperuna. Með hlutverk Ellen Orford fer breska sópransöngkonan Susan Gritton, sem meðal annars hefur sungið hlutverkið við Scala-óperuna í Mílanó. Einn fremsti baritónsöngvari okkar á hinu alþjóðlega sviði, Ólafur Kjartan Sigurðarson fer með  hlutverk Balstrode, í sínu fyrsta óperuhlutverki í Hörpu. 

Önnur hlutverk eru í höndum þekktustu óperusöngvara okkar; Hönnu Dóru Sturludóttur, Hallveigu Rúnarsdóttur, Lilju Guðmundsdóttur, Snorra Wium, Viðars Gunnarssonar, Ingveldar Ýrar Jónsdóttur, Garðars Thór Cortes, Odds Arnþórs Jónssonar og Jóhanns Smára Sævarssonar.