EN

25. nóvember 2009

Skráðu þig á póstlistann - Bókarverðlaun

jonleifs_forsida_2

Skráðu þig á póstlistann okkar (smelltu hér) og fáðu reglulegar fréttir af starfi hljómsveitarinnar og óvænt tilboð. 17. desember verða þrjú netföng dregin út og fá þeir heppnu bókina  Líf í tónum sem  er ný ævisaga Jóns Leifs rituð af Árna Heimi, tónlistarfræðingi og tónlistarstjóra SÍ.

Jón Leifs var einn merkasti og óvenjulegasti listamaður Íslands á 20. öld. Í miðri heimsstyrjöldinni fyrri sigldi hann til Þýskalands, aðeins sautján ára gamall, staðráðinn í að leggja tónlistina fyrir sig þótt ekki hefði hann nema óljósan grun um hvað í því fælist.

Hann kvæntist konu af gyðingaættum en bjó þó í Þýskalandi fram til ársins 1944, fluttist þá til Svíþjóðar þar sem ný ást og stór harmur biðu hans, og þaðan aftur heim til Íslands – í annars konar stríð og á vit enn nýrrar ástar.

Saga Jóns er saga manns sem var of stór fyrir Ísland þess tíma – stórbrotinn metnaður hans og bjargföst trú á heilaga köllun í tónlistinni varð honum bæði gæfa og ógæfa. Jón var um margt langt á undan sinni samtíð, varð fyrstur Íslendinga til að stjórna fullskipaðri sinfóníuhljómsveit, hljóðritaði íslensk þjóðlög þegar þau voru einskis metin, stofnaði STEF og samdi tónlist sem mörgum þótti óþolandi hávaði en er nú talin með því merkasta sem gert hefur verið í íslenskri tónlist fyrr og síðar.

Árni Heimir Ingólfsson skráir lífshlaup Jóns Leifs í þessari dramatísku ævisögu og hefur velt við hverjum steini í leit sinni að heimildum um líf hans. Rannsóknir hans á ævi og störfum Jóns hafa staðið í þrettán ár, og á þeim tíma hefur hann ritað fjölda greina um tónskáldið, meðal annars skýringargreinar við flesta diska Sinfóníuhljómsveitar Íslands með tónlist hans fyrir sænsku BIS-útgáfuna. Bókin er gefin út af Máli og menningu og hefur hlotið afbragðs dóma.


„Árni getur verið afar ánægður með sitt verk sem hlýtur að teljast eitt það merkilegasta sem komið er út á þessu ári... Ítarleg og vönduð ævisaga um jöfur í íslenskri tónsköpun.“
*****
Páll Baldvin Baldvinsson / Fréttablaðið

„Verulega áhugaverð og góð ævisaga og ákaflega gaman að lesa hana.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / Kiljan

„...grípandi örlagasaga...Að lestri loknum þykir mér vænt um þennan mann.“
Jenný Anna

„Metnaðarfull og vönduð ævisaga... Jón Leifs hefur fengið þá umfjöllun sem hann verðskuldar“.
*****
Jón Viðar Jónsson, DV 

„Hreint út sagt frábær bók...  markar ákveðin tímamót í ritun íslenskrar tónlistarsögu.“
Helgi Jónsson, Víðsjá