EN

12. febrúar 2015

Þriðju tónleikunum með Eivøru bætt við

Fimmtudaginn 26. feb. kl. 22

Það þarf ekki að koma á óvart að selst hafi upp á tvenna auglýsta tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands með söngkonunni Eivøru.  

Með framúrskarandi og seiðandi sviðsframkomu og flutningi hefur söngkonan og lagasmiðurinn Eivør Pálsdóttir sungið sig inn í hug og hjörtu Íslendinga. Þessi hæfileikaríka færeyska tónlistarkona er handhafi fjölda verðlauna og má meðal annarra nefna Íslensku tónlistarverðlaunin árið 2003 sem besta söngkonan og besti flytjandinn, Færeyingur ársins árið 2004, Grímuverðlaunin árið 2005 fyrir tónlist og flutning í Úlfhamssögu og Dönsku tónlistarverðlaunin árið 2006.

Nú sameina Eivør, hljómsveit hennar og Sinfóníuhljómsveit Íslands krafta sína í Norðurljósasal Hörpu og flytja m.a. lög af  plötunum Room sem kom út 2012 og lög af nýrri plötu hennar sem kemur einmitt út í febrúar og ber nafnið Bridges.

Lagasmíðar söngkonunnar spanna mikla breidd í tilfinningum og túlkun þar sem ástin, söknuður, minningar, frelsi og náttúra eru yrkisefni. Eiginmaður Eivarar, tónskáldið Tróndur Bogason, klæddi lögin í sinfónískan búning en hann leikur jafnframt á hljómborð í hljómsveit söngkonunnar ásamt Magnusi Johannesen píanóleikara og Mikael Blak bassaleikara.

Stjórnandi á tónleikunum er samlandi Eivarar, Bernharður Wilkinson, sem er tónleikagestum Sinfóníuhljómsveitar Íslands að góðu kunnur en Bernharður hefur stjórnað mörgum af vinsælustu tónleikum hljómsveitarinnar.