Maxímús tilnenfndur til YEAH-verðlaunanna
Nýverið var tilkynnt að verkefnið um Maxímús Músíkús, sem slegið hefur í gegn hérlendis og verið sett á svið víða um heim, væri tilefnt til YEAH-verðlaunanna 2015. Þau eru veitt sem fyrir bestu tónlistarverkefni í Evrópu ætluð ungu fólki. Yfir 100 verkefni frá tuttugu Evrópulöndum sóttust eftir tilnefningu að þessu sinni en aðeins 15 hlutu tilnefningu. Verðlaunin eru veitt annað hvert ár af Netzwerk junge Ohren í Berlín.
Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur verið stoltur þátttakandi og aðstandandi verkefnisins um Maxímús frá upphafi en sögur hljómsveitarinnar og Maxímúsar eru samantvinnaðar. Hljómsveitin hefur frumflutt og hljóðritað öll ævintýrin um músina frá því að hún leit fyrst dagsins ljós í Háskólabíói fyrir 7 árum. Hljóðritin fylgja bókunum um Maxímús sem nú eru 4 dalsins og Forlagið hefur gefið út.
Hallfríður Ólafsdóttir, leiðandi flautuleikarari við Sinfóníuhljómsveit Íslands er höfundur og hugmyndasmiður verkefnisins um Maxímús Músíkús og félagi hennar í hljómsveitinni, Þórarinn Már Baldursson, víóluleikari, myndskreytir sögurnar.
Hugmyndafræðin að baki verðlaununum er sú að tónlist tengi fólk saman og því sé lífleg og skapandi tónlistarsena lykillinn að friðsamlegri framtíð í fjölmenningarlegri Evrópu. Þannig tengist ungir Evrópubúar fjölbreyttum rótum menningar sinnar og um leið hver öðrum með jákvæðum hætti. Því er mikilvægt að hampa frumlegum tónlistarflutningi sem leyfi ungum – og ungum í anda – að upplifa tónleika og tónlistarleikhús á nýjan og skapandi hátt. Slíkt starf ýti undir frumkvæði meðal evrópskra tónlistarmanna og hvetji þá til nýsköpunar.YEAH!-verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum og er verkefnið um Maxímús Músíkús í hópi þeirra tíu sem útnefnd voru fyrir „tónleikaflutning“ en einnig voru valin fimm verkefni í flokkinn „verk í vinnslu“. Sjálf verðlaunin verða veitt í Þýskalandi í júní.
Þess má geta að skólabörn fá að njóta sögunnar um Maxímús í nýrri kammerútgáfu á skólatónleikum Sinfóníunnar í mars og tónelska músin mætir á ný á tónleika Litla tónsprotans í haust.
- Eldri frétt
- Næsta frétt