EN

16. mars 2015

Tónleikar með Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts

Uppskeruhátíð samstarfsverkefnis með Sinfóníuhljómsveit Íslands

Á yfirstandandi starfsári hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands átt í sérstöku samstarfi við Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts. Samstarfið hefur falið í sér að SÁB hefur heimsótt Sinfóníuna í Hörpu og þá hefur Sinfónían heimsótt SÁB og spilað með krökkunum á tónleikum fyrir samnemendur þeirra í Breiðholtsskóla og Árbæjarskóla.

C sveit SÁB, skipuð nemendum sem eru lengst komnir innan sveitarinnar, lék svo eftirminnilega á Jólatónleikum Sinfóníunnar í desember.

Samstarfið náði hámarki í dag þegar allar sveitirnar þrjár innan SÁB komu fram á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg undir stjórn Rúnars Óskarssonar. Gestir á tónleikunum voru samnemendur, kennarar, aðstandendur og fleiri. Á efnisskránni var fjölbreitt úrval tónlistar eins og kaflar úr Myndum á sýningu eftir Modest Músorgskíj, We will rock you með Queen, Let it go úr Frozen, Happy með Pharrel Williams og Í höll dofrans eftir Edvard Grieg.