EN

24. mars 2015

Sjö tónleikar á 4 stöðum

Fjölbreytt fræðsluvika Sinfóníunnar

Síðasta vika var fjölbreytt og óhefðbundin vika í starfi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Í hinni svokölluðu fræðsluviku fékk hljómsveitin skólahljómsveit í heimsókn og hélt með henni tónleika, fór í skólaheimsóknir í 3 skóla, fékk leikskóla- og skólabörn á tónleika í Eldborg og hélt prufuspil fyrir Ungsveit Sinfóníunnar.

Vikan byrjaði með uppskeruhátíð samvinnuverkefnis hljómsveitarinnar og Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts. Krakkarnir í öllum 3 deildum sveitarinnar léku með Sinfóníunni undir stjórn Rúnars Óskarssonar á sviði Eldborgar fyrir um 700 gesti. Áheyrendur voru skólafélagar, foreldrar og aðrir gestir. Á meðan á samvinnuverkefninu hefur staðið hefur skólahljómsveitin komið til æfinga í Eldborg, Sinfónían hefur heimsótt skólana þeirra og spilað fyrir nemendurna og svo lék ein deild á Jólatónleikum Sinfóníunnar í desember. Nú hefur verið ákveðið að halda verkefninu áfram næsta vetur.

Sinfónían heimsótti einnig nokkra grunnskóla í vikunni og lék fjölbreytta efnisskrá fyrir skólabörn víðsvegar um höfuðborgarsvæðið. Þá komu 2500 skólabörn á tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar í Eldborg þar sem flutt var sagan Maxímús Músíkús heimsækir hljómsveitina. Höfundur sögunnar, Hallfríður Ólafsdóttir, stjórnaði Sinfóníunni á tónleikunum.