EN

24. mars 2015

Bein tilraunaútsending frá tónleikum í Sjónvarpi Símans

Sinfóníuhljómsveit Íslands og Síminn standa fyrir tilraunaverkefni þar sem tónleikum sveitarinnar verður sjónvarpað beint á sérstakri rás í Sjónvarpi Símans. 

Þrennum tónleikum Sinfóníunnar verður sjónvarpað nú á vormánuðum. Þeir fyrstu eru tónleikarnir Benedetti leikur Mozart 26. mars. Ef þessar tilraunaútsendingar mælast vel fyrir verður áskriftartónleikum Sinfóníunnar á næsta starfsári sjónvarpað beint og fólki gefst kostur á að gerast áskrifendur að rás Sinfóníunnar í Sjónvarpi Símans.

Tónleikarnir verða sendir beint út í Sjónvarpi Símans á á rás 50 og í HD á rás 250 notendum þess að kostnaðarlausu meðan á tilraunaútsendingum stendur. Tónleikarnir verða aðgengilegir í Tímaflakki í 24 stundir á eftir. 

Markmiðið með samstarfinu er að ná til breiðari hóps landsmanna. 

„Í samstarfi við Símann opnast möguleikar okkar að miðla með sjónrænum hætti tónleikunum Sinfóníunnar og ná þannig til þeirra sem komast ekki á tónleika okkar í Eldborg, t.d. þeirra sem búa úti á landi eða eiga ekki heimangengt,” segir Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. 

„Í viku hverri viku bjóðum við upp á vandað efni, tónleika með frábærum listamönnum – eins og við höfum gert í 65 ár. RÚV hefur útvarpað beint frá tónleikum okkar á Rás 1 og sýnt frá völdum tónleikum í sjónvarpi. Með samstarfi við Símann nýtum við nýja miðla og tækni til að ná til stærri áheyrendahóps með fjölbreyttari hætti. Landsmönnum gefst nú frábært tækifæri til að kynnast Sinfóníuhljómsveitinni betur í gegnum Sjónvarp Símans. Hljómsveitin er skipuð landsliði klassískra tónlistarmanna og við viljum að sem flestir fái að njóta með einum eða öðrum hætti,“ bætir Arna Kristín við.“ 

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir samstarfið feng fyrir Símann. „Fólki gefst nú ekki aðeins tækifæri til að horfa á sinfóníuhljómsveitina sína í beinni út um allt land, heldur geta hörðustu aðdáendurnir farið á tónleikana og horft svo aftur á bestu kaflana með Tímaflakkinu þegar heim er komið og svo í hálfan mánuð á eftir á VOD-inu.“

Fyrstu tónleikarnir í beinni frá Eldborg eru ekki af verri endanum en skarta fiðlustjörnunni Nicola Benedetti sem leikur 5. fiðlukonsert Mozarts með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún er skosk-ítölsk og skaust upp á stjörnuhimininn þegar hún bar sigur úr býtum í „BBC Young Musician of the Year“ aðeins 16 ára gömul árið 2004. Síðan hefur hún leikið m.a. á lokakvöldi Proms-tónlistarhátíðarinnar og er nú samningsbundin Deutsche Grammophon. Hún leikur vinsælasta fiðlukonsert Mozarts, sem hann samdi aðeins 19 ára gamall. Stjórnandi á tónleikunum er Hans Graf.

Nánar um tónleikana