EN

7. apríl 2015

Yrkja - verkefni fyrir tónskáld

Sinfóníuhljómsveit Íslands og Tónverkamiðstöð taka höndum saman - Umsóknarfrestur er til 1. maí.

Sinfóníuhljómsveit Íslands og Tónverkamiðstöð bjóða þremur tónskáldum að verja níu mánuðum með Sinfóníuhljómsveitinn þar sem þau munu þróa færni sína í að skrifa fyrir hljómsveit og frumflytja ný verk. Tónskáldin fá innsýn inn í innra starf hljómsveitarinnar, vinna náið með hljóðfæraleikurunum og starfsfólki SÍ undir handleiðslu Daníels Bjarnasonar tónskálds og hljómsveitarstjóra sem nú gegnir stöðu staðarlistamanns Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Þetta níu mánaða ferli mun meðal annars fela í sér tvær tónskáldastofur og tónleika með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Áhersla er lögð á ferli listsköpunar og munu þátttakendur í Yrkju verða hvattir til að þróa hugmyndir sínar og aðferðir við sköpun. Við viljum hlúa að starfsferli tónskáldanna og mun því verkefnið fela í sér ráðgjafaviðtöl í Tónverkamiðstöð um starfsferil tónskáldsins og mun miðstöðin skipuleggja fund þar sem tónskáldin í verkefninu hittast og deila reynslu sinni af verkefninu og skiptast á hugmyndum.

Yrkja er starfsþróunarverkefni Tónverkamiðstöðvar fyrir tónskáld. Verkefnið parar saman valin tónskáld úr ólíkum áttum við úrval íslenskra listastofnanna. Á þessu starfsári fá tónskáld tækifæri til að vinna með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Jaðarberi tónleikaröð og Nordic Affect. Hér er auglýst eftir umsóknum um þátttöku í verkefni með Sinfóníuhljómsveit Íslands. 

Markmið Yrkju er að veita hagnýta reynslu sem getur orðið að hornsteini í ferli tónskáldsins. Verkefnið er fyrir tónskáld á fyrri hluta starfsævi sinnar, það brúar bilið milli háskólanáms og starfsferils. Verkefnið undirbýr tónskáld fyrir vinnu í faglegu umhverfi hjá stærri hljómsveitum, hátíðum og öðrum listastofnunum hérlendis og erlendis. Þátttaka í verkefninu getur haft áhrif á tónskáldið hvað varðar þróun hæfileika, listrænan metnað, starfsreynslu og tengslamyndun í tónlistargeiranum. 

Hægt er að hlaða niður umsóknareyðublaði á vef  Tónverkamiðstöðvar ásamt frekari upplýsingum:


ná í umsókn