EN

18. maí 2015

Judith Howarth í stað Susan Gritton

Breska sópransöngkonan Susan Gritton sem syngja átti hlutverk Ellen Orford í tónleikauppfærslu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Íslensku óperunnar á Peter Grimes eftir Benjamin Britten, hefur forfallast. Í hennar stað kemur samlanda hennar, Judith Howarth.

Judith Howarth hóf feril sinn sem söngkona við Covent Garden-óperuna í Lundúnum, þar sem hún var fastráðin í níu ár og söng fjölda hlutverka, meðal annars Musettu í La bohème, Liù í Turandot og Gildu í Rigoletto, Hún hefur síðan sungið m.a. Ellen Orford (Peter Grimes) í Toulouse og í Síle, og Víólettu í La traviata við Minnesota-óperuna, Ensku þjóðaróperuna og Glyndebourne. Þá hefur hún sungið Frú Maó í Nixon in China við Ensku þjóðaróperuna, sálumessu Verdis í Royal Albert Hall, og titilhlutverkið í Madama Butterfly við Helsinki-óperuna. 

Á tónleikapalli hefur hún m.a. haldið tónleika með Plácido Domingo í viðamikilli tónleikaferð og sungið Fjóra síðustu söngva eftir Richard Strauss undir stjórn Sir Simons Rattle. Hún hefur komið fram á tónlistarhátíðum á borð við Proms í Lundúnum, sem og sumarhátíðunum í Edinborg, Salzburg og Tanglewood. Meðal stjórnenda sem hún hefur starfað með má nefna Bernard Haitink, Sir Colin Davis, Sir Georg Solti, Claudio Abbado, Sir John Eliot Gardiner og Daniel Barenboim. Nýverið söng hún hlutverk Ellen Orford í Peter Grimes við Ensku þjóðaróperuna og mun næsta vetur syngja hlutverkið við Deutsche Oper í Berlín.

Það er mikill fengur af komu Howarth og um leið mikið lán að hún gar brugðist við með svo stuttum fyrirvara. Þess má geta að Stuart Skelton, er syngur titilhlutverkið, og Howarth hafa sungið hlutverkin saman áður. Það var við Ensku þjóðaróperuna í Lundúnum.

Nánar