EN

2. júní 2015

Tímamótatónleikar og málstofa

Stór hljómsveitarverk eftirtektarverðra tónskálda; baráttukvenna og brautryðjenda verða í brennidepli þegar aldarafmælis kosningaréttar íslenskra kvenna verður minnst á sögulegum tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Jórunn Viðar, eitt af höfuðtónskáldum 20. aldarinnar á Íslandi og Amy Beach sem var fyrsta bandaríska kventónskáldið sem átti miklum vinsældum að fagna heima fyrir ruddu brautina fyrir komandi kynslóðir tónsmiða. Anna Þorvaldsdóttir er í fremstu röð yngri tónskálda en hún hlaut meðal annars Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs fyrir verk sitt Dreymi. 

Einleikari á tónleikunum er Ástríður Alda Sigurðardóttir píanóleikari og stjórnandi er aðalhljómsveitarstjóri Fílharmóníusveitarinnar í Bogotá í Kólumbíu, Ligia Amadio sem hefur stjórnað þekktum hljómsveitum í Ameríku, Asíu og Evrópu og hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín.Tónleikarnir eru hluti af dagskrá í tilefni af 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi.

Málstofa: Baráttukonur og brautryðjendur

Í tilefni tónleikanna og afmælis kosningaréttarins efnir Sinfóníuhljómsveit Íslands til málstofu mánudaginn 8. júní kl. 20 í Kaldalóni Hörpu þar sem konur og hinn sinfóníski heimur verða í brennidepli.

Á málstofunni flytja Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníunnar, og Hjördís Ástráðsdóttir, fræðslustjóri hljómsveitarinnar, stutt erindi auk þess sem hljómsveitarstjórinn Ligia Amadio verður tekin tali. Þá verða pallborðsumræður þar sem Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld, Daníel Bjarnason, tónskáld og hljómsveitarstjóri og staðarlistamaður, Eiríkur Örn Pálsson, trompetleikari, Hallfríður Ólafsdóttir, flautuleikari og Laufey Sigurðardóttir, fiðluleikari taka þátt.

Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

Málstofan tónleikarnir