EN

25. ágúst 2015

Listin er manninum lífsnauðsynleg

Arna Kristín Einarsdóttir framkvæmdarstjóri SÍ 

Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð 1950, sex árum eftir stofnun hins íslenska lýðveldis, sama ár og Þjóðleikhúsið var vígt. Ráðamenn og konur þessa tíma voru metnaðarfull og stórhuga fyrir hönd þjóðarinnar og skildu mikilvægi lista og menningar í mótun samfélagsins. Á þessum 65 árum hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands orðið ein af grunnstoðum íslensks menningarlífs og vakið alþjóðlega athygli. Hljómsveitin laðar til sín hljómsveitarstjóra og einleikara á heimsmælikvarða sem sækjast eftir því að starfa með henni við
þær kjöraðstæður sem eru í Hörpu. Síðasta starfsár hófst í Royal Albert Hall á hinni heimsþekktu tónlistarhátíð BBC Proms en þeir tónleikar voru valdir einir athyglisverðustu tónleikar hátíðarinnar 2014 af breskum tónlistargagnrýnendum.

Starfsemi hljómsveitarinnar snertir stóran hluta þjóðarinnar. Á síðasta ári sóttu 76.500 manns tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands eða um fjórðungur landsmanna fyrir utan þá sem hlusta á beinar útsendingar frá tónleikum á Rás 1 eða horfa á sjónvarpsútsendingar. Það sem einkennir Sinfóníuhljómsveit Íslands og greinir hana frá öðrum erlendum sinfóníu­hljómsveitum er hversu breitt starfssvið okkar er. Sem þjóðarhljómsveit setjum við á okkur ólíka hatta eftir því hvert tilefnið er. Við leikum brothættan Händel, ljúfan Mozart,
kraftmikinn Beethoven, þéttofinn Brahms, margslunginn og ægifagran Tsjajkovskíj og byltingarkenndan Shostakovitsj. Við bjóðum
jafnframt upp á barnastundir fyrir yngri börnin, bíótónleika, opið hús og fjölskyldutónleika þar sem trúðurinn Barbara opnar heim tónlistarinnar fyrir börnum og fullorðnum af sinni alkunnu snilld. Hljómsveitin hefur hins vegar líka verið óhrædd við að spreyta sig á þungarokki og glamúrpoppi ef því er að skipta, flutt óperur og staðið fyrir nútímatónlistarhátíðinni Tectonics svo fátt eitt sé nefnt.

Markmið hljómsveitarinnar er að ná stöðugt til stærri og breiðari hóps áheyrenda. Á nýju starfsári leggjum við land undir fót og höldum tónleika á Ísafirði, Akureyri og á Egilsstöðum. Síðustu misseri hefur stöðugt meiri áhersla verið lögð á fræðslustarf og nú er svo komið að hljómsveitin ver nær fjórðungi tíma síns í fræðsluverkefni og skólatónleika á hverju starfsári. Á síðasta ári  lék hljómsveitin fyrir um 16.000 nemendur í Eldborg. Verkefnin eru ólík og af ýmsum toga, allt frá skólaheimsóknum þar sem hljómsveitinni er skipt upp í minni sveitir, sem ferðast um höfuðborgarsvæðið, í að starfrækja Ungsveit Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem heldur árlega tónleika í Eldborg. Með því að opna hug og eyru barna fyrir sinfónískri tónlist opinberast heimur sem annars væri þeim hulinn. Stór sinfónísk tónverk eru slík andans verk að helst má líkja við stórvirki á borð við kirkju Gaudis, La Sagrada Família, í Barcelona eða myndlist Michelangelos í lofti Sixtínsku kapellunnar í Vatíkaninu. Hugsmíðar tónskáldanna lyfta mannsandanum og koma okkur í snertingu við eitthvað sem er stærra og meira en við sjálf. Til að fá notið þess andlega fóðurs ætti hverju barni á Íslandi að standa tónlistarnám eða annað listnám til boða. Það eru sjálfsögð réttindi.

Listin er manninum lífsnauðsynleg og það sem greinir okkur frá öðru lífi á jörðinni. Það var listin sem hélt lífi í forfeðrum okkar hér á norðurhjara veraldar í gegnum vosbúð aldanna, og gerir enn. Þessi tjáning tilfinninga tengir manneskjurnar og hjálpar okkur að skilja hvert annað og okkur sjálf betur. Það er sú tjáning sem mótar menningu og sjálfsmynd þjóðar og þar hefur Sinfóníuhljómsveit Íslands leikið lykilhlutverk síðustu 65 ár. Við fögnum áfanganum, hlökkum til að starfa áfram í þágu þjóðarinnar og vonumst til að sjá sem flesta á tónleikum hljómsveitarinnar á komandi starfsári.

Arna Kristín Einarsdóttir framkvæmdarstjóri SÍ