EN

2. september 2015

Upphafstónleikar 2015/16

Kristinn Sigmundsson, söngvarinn ástsæli, kemur fram á tvennum upphafstónleikum nýs starfsárs Sinfóníuhljósmveitar Íslands 3. og 4. september. Á tónleikunum syngur Kristinn aríur úr nokkrum af uppáhaldsóperum sínum og bregður sér í hlutverk Don Basilio í Rakaranum frá Sevilla eftir Rossini, greifans í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart, Bancos úr Macbeth og Sakaríasar í Nabucco eftir Verdi.

Óperukórinn í Reykjavík verður Kristni til halds og trausts á tónleikunum en stjórnandi er fyrrum aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands Rico Saccani sem er annálaður túlkandi óperutónlistar.

Sinfónían aldrei aðgengilegri

Tónleikarnir marka ennfremur upphaf reglulegra beinna útsendinga frá tónleikum Sinfóníunnar í Sjónvarpi Símans en að jafnaði verða sendir út tvennir tónleikar í mánuði allt starfsárið. Fyrstu tvennir, upphafstónleikarnir og tónleikar 17. september verða notendum Sjónvarps Símans að kostnaðarlausu en frá og með 1. okt verður hægt að kaupa áskrift að tónleikum vetrarins.

Flestir tónleikar starfsárins verða í beinni útsendingu á Rás 1 eins og verið hefur um árabil. Þann 4. september sendir RÚV upphafstónleikana út í beinni útsendingu á Rás 1 og einnig í sjónvarpi. 

Tónleikarnir 3. sept eru í rauðri röð og hefjast kl. 19:30.
Tónleikarnir 4. sept hefjast kl. 20.

Nánar