EN

23. október 2015

Sinfóníuhljómsveit Íslands  fer landshorna á milli

Tónleikaferð 26. -29. október

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur í tónleikaferð landshorna á milli með glæsilega dagskrá í farteskinu í lok október. Hljómsveitin heldur tónleika í íþróttahúsinu Torfnesi á Ísafirði 26. október, Hofi á Akureyri 27. október og Íþróttamiðstöðinni á Egilsstöðum 29. október. Hljómsveitarstjórinn og tónskáldið Daníel Bjarnason stjórnar meðal annars eigin verki, Blow Bright. Einnig verður leikið eitt allra fegursta tónverk sögunnar, hinn undurfagri klarínettkonsert Mozarts, í flutningi eins okkar fremsta tónlistarmanns af yngri kynslóðinni, Arngunnar Árnadóttur. Tónleikunum lýkur á stórbrotinni og hádramatískri fjórðu sinfóníu Tsjajkovskíjs.

 „Þetta er stærsta verkefni vetrarins hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Við mætum í öllu okkar veldi, með 85 manna hljómsveit með íslenskan hljómsveitarstjóra og einleikara. Þetta er landslið íslenskra tónlistarmanna. Við erum með sannkallaða tónlistarveislu í farangrinum, í hátíðarskapi og hlakkar mikið til að leika fyrir tónleikagesti á Ísafirði, Akureyri og Egilsstöðum,“  segir Arna Kristín Einarsdóttir framkvæmdarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Í för með Sinfóníuhljómsveitinni verður músin knáa Maxímús Músíkús en sívinsælt ævintýrið um Maxa og hljómsveitina verður á dagskrá á sérstökum skóla- og barnatónleikum Sinfóníunnar á Ísafirði og Egilsstöðum. Valur Freyr Einarsson leikari er sögumaður tónleikanna en höfundur ævintýrsins, Hallfríður Ólafsdóttir,  stjórnar hljómsveitinni.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og allir velkomnir. Það er Flugfélag Íslands sem ljær hljómsveitinni væangi á ferðalaginu.

Nánar