EN

27. nóvember 2015

Nýr hljómdiskur: Fiðlukonsertar

Sigrún Eðvaldsdóttir

Sinfóníuhljómsveit Íslands sendir frá sér nýjan hljómdisk í röð sem endurspeglar mikilvæg augnablik helstu einleikara úr röðum hljómsveitarinnar.

Sigrún Eðvaldsdóttir er í hlutverki einleikarans á þessum nýja diski sem inniheldur fjóra af þekktustu fiðlukonsertum tónbókmenntanna frá 19. og 20. öld eftir Brahms, Dvořák, Sibelius og Berg. Konsertarnir eiga það sameiginlegt að einleikshlutverk þeirra allra er mjög krefjandi, bæði hvað tækni og mótun varðar en um leið er hlutverk hljómsveitarinnar íburðarmikið. Þá eru þeir allir sömuleiðis einu fiðlukonsertar tónskáldanna.

Sigrún Eðvaldsdóttir, 1. konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hefur skipað sér sess sem einn fremsti flytjandi klassískrar tónlistar á Íslandi og skapað sér gott orðspor á alþjóðlegum vettvangi.  Sigrún hefur gegnt stöðu konsertmeistara hljómsveitarinnar síðan 1998.

 

Áður útgefið í röðinni:

Sinfóníuhljómsveit Íslands & Einar Jóhannesson: Klarínettukonsertar
Sinfóníuhljómsveit Íslands & Guðný Guðmundsdóttir: Fiðlukonsertar

Útgáfuröðin er samstarfsverkefni Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Ríkisútvarpsins og Útgáfufélagsins Smekkleysu.