EN

10. desember 2015

San Francisco ballettinn ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands

Í Hörpu á Listahátíð 2016

Á löngum ferli sínum sem listrænn stjórnandi San Francisco ballettsins hefur Helgi leitt ballettflokkinn í fremstu röð í hinum alþjóðlega ballettheimi. Á Listahátíð í vor sýnir hann valda kafla úr dáðustu verkum flokksins ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands á sviði Eldborgar. Íslendingum gefst einstakt tækifæri til að njóta hátindanna á glæstum og farsælum ferli Helga á alls fjórum sýningum 28. - 30. maí. Sýningin er samstarfsverkefni Hörpu, Listahátíðar í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Lau. 28. maí kl. 20  – frumsýning
Sun. 29. maí kl. 14
Sun. 29. maí kl. 20
Mán. 30. maí kl. 20

Á efnisskránni í Eldborg í maí verður verk eftir Helga sjálfan við tónlist eftir Tsjajkovskíj og eftir breska danshöfundinn Christopher Wheeldon, við tónlist eftir Bosso og Vivaldi. Þá verður sýnt verk eftir hinn rússneska Alexei Ratmansky við tónlist eftir Sjostakóvítsj. Wheeldon og Ratmansky starfa reglulega með San Francisco ballettinum og eru þekktir fyrir verk í hinum nýklassíska stíl sem George Balanchine innleiddi í ballettheiminn. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands flytur tónlistina á sýningu San Francisco ballettsins í Hörpu á Listahátíð, undir stjórn Martin West, tónlistarstjóra og aðalstjórnanda hljómsveitar San Francisco ballettsins en hann þykir vera einn fremsti stjórnandi balletttónlistar í heiminum. Þetta er í fyrsta sinn sem San Francisco ballettinn dansar á Íslandi við lifandi tónlist en í fjórða sinn sem gestir Listahátíðar njóta listfengis hans. 

Nánar um dansflokkinn og Helga Tómasson

San Francisco ballettinn er einn þriggja stærstu ballettflokka í Bandaríkjunum og sá elsti, stofnaður árið 1933. Undir stjórn Helga á síðustu þremur áratugum hefur ballettinn hlotið almenna viðurkenningu sem einn fremsti ballettflokkur heims og er þekktur fyrir víðfeðma efnisskrá, óvenjumikla breidd og hæfni dansaranna, og listræna sýn sem hefur sett ný viðmið í hinum alþjóðlega ballettheimi. Á síðustu árum hefur flokkurinn m.a. komið fram í Opera de Paris og Theatre de Chatelet í París, Sadler's Wells og Royal Opera House í London og Tivoli Garden Concert Hall í Kaupmannahöfn. Árið 2013 lýsti New York Times ballettflokknum sem „þjóðargersemi“. 

Helga Tómassyni var boðin staða listræns stjórnanda San Fancisco ballettsins árið 1985. Þá hafði hann starfað sem aðaldansari hjá New York City Ballet í fimmtán ár og hefur verið lýst sem einum besta klassíska dansara þess tíma.

San Francisco ballettinn er nú talinn dansa betur en nokkru sinni fyrr í áttatíu og tveggja ára sögu sinni en í þjálfun dansara hefur, undir stjórn Helga, verið lögð áhersla á hinn klassíska grunn. Gagnrýnandi breska dagblaðsins The Guardian lýsti Helga svo í gagnrýni árið 2004:

As director of San Francisco Ballet, Helgi Tomasson has started to acquire an aura of infallibility, his expertise in laying down repertory, and in balancing great evenings of dance is held in envy by the rest of the profession.“

Helgi hefur samið yfir fjörtíu verk á ferli sínum fyrir San Francisco ballettinn, þar á meðal klassísk stórverk á borð við Hnotubrjótinn, Rómeó & Júlíu og Gísellu en einnig styttri verk sem draga fram einstaka hæfileika hvers aðaldansara ballettsins fyrir sig. Helgi hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín í þágu danslistarinnar. Hann var sæmdur stórkrossi íslensku fálkaorðunnar árið 2007, stórriddarakrossinum árið 1990 og riddarakrossinum árið 1974.

Miðasala fer fram á harpa.is og í miðasölu Hörpu í síma 528 5050.

Harpa Listahátíð