EN

21. janúar 2003

Þreytir frumraun sína með hljómsveitinni

Hermann Stefánsson hóf að læra klarinnettleik aðeins níu ára gamall í tónlistarskólanum á Akranesi undir handleiðslu Þóris Þórissonar. Auk þess stundaði hann nám í Piteaa í Svíþjóð, í Rotterdam og Los Angeles. Hermann er í dag fyrsti klarinettleikari í Konunglegu Stokkhólmsfílharmóníunni og í Sinfoniettu Stokkholmsborgar en hana skipa hópur úrvalshljóðfæraleikara úr stærri hljómsveitum Stokkhólms og Gautaborgar. Hann leikur einnig reglulega með Svenska Serenadensamblen, Konunglega Fílharmóníublásarakvintettinum auk þess að vera aðjúnkt við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi. +++ Hermann starfaði áður sem kennari við tónlistarskólana í Malmö og Piteaa og var félagi í Sinfóníuhljómsveitinni í Helsingborg. Hann hefur komið fram sem einleikari með öllum helstu sinfóníuhljómsveitum Svíþjóðar og starfað með mörgum þekktum hljómsveitarstjórum svo sem: Leif Segerstam, Okku Kamu og Sixten Ehrling. Hann hefur einnig komið fram á fjölda kammertónleika og tónlistarhátíðum. Hermann hefur kennt á fjölda námskeiða og komið fram sem gestafyrirlesari bæði í Svíðþjóð og víðar, m.a.í Kína og Bandaríkjunum.Framundan hjá Hermanni er m.a. heimsókn til Sarjevo þar sem hann hefur tekið að sér kennslu við Tónlistarháskólann í Sarajevo auk þess að vera ráðinn á fjölda tónlistarhátíða í sumar og á nokkra kammertónleika í Tónlistarhúsinu í Stokkhólmi