EN

21. janúar 2016

Osmo framlengir til 2020

Finnski hljómsveitarstjórinn Osmo Vänskä hefur framlengt samning sinn sem aðalgestastjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Íslands um þrjú starfsár, fram á sumar 2020. Hann hefur gegnt stöðunni frá árinu 2014 en var einnig aðalstjórnandi hljómsveitarinnar á árunum 1993-96 og stýrði hljómsveitinni meðal annars á merkum tónleikum í Carnegie Hall árið 1996. Frammistaða Vänskä með hljómsveitinni hefur vakið mikla eftirtekt og er það mat manna að hann lyfti sveitinni í nýjar hæðir með túlkun sinni. Um síðustu tónleika hans með SÍ, í október 2015, ritaði Ingvar Bates, tónlistargagnrýnandi Morgunblaðsins: "Það verður að teljast meiriháttar upphefð fyrir sinfóníuna íslensku sem og íslenskt menningarlíf að eiga Osmo Vänskä að sem aðalgestastjórnanda."

Vänskä hefur stjórnað öllum helstu hljómsveitum heims og hefur verið aðalstjórnandi. Minnesota-hljómsveitarinnar frá árinu 2003. Hann hefur hlotið mikið lof fyrir starf sitt með þeirri sveit, hefur m.a. hljóðritað með henni allar sinfóníur Beethovens og um þann flutning sagði gagnrýnandi New York Times að þar væri komin „hin fullkomna Beethoven-túlkun okkar tíma“. Vänskä hefur hljóðritað fyrir sænska forlagið BIS um áratugaskeið, meðal annars tvo hljómdiska með Sinfóníuhljómsveit Íslands sem hafa hlotið afbragðs dóma á heimsvísu. Meðal verkefna hans hér á næsta starfsári eru sinfóníur eftir Beethoven og Nielsen, en næstu misseri munu hljómsveitin og Vänskä einnig leggja sérstaka áherslu á að flytja sinfóníur Mahlers.

Osmo Vänskä segir af þessu tilefni:

 „Harpa er stórkostlegt tónlistarhús og mikilvægi þess fyrir íslenskt tónlistarlíf verður seint ofmetið. Ég er sérlega ánægður með hversu Sinfóníuhljómsveitinni hefur farið fram frá því að hún flutti í Hörpu, og ég nýt þess að skapa dásamlega tónlist með þeim í hvert skipti sem ég kem hingað. Ég elska þessa hljómsveit og hlakka til samstarfsins við hana í framtíðinni. 

Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands:

Það felst mikil viðurkenning í því fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands að Osmo Vänskä, einn eftirsóttasti hljómsveitarstjóri heims, taki að sér hlutverk gestastjórnanda hennar. Að öðrum ólöstuðum hefur aðkoma Osmo að hljómsveitinni skipt sköpum allt frá því að hann var ráðinn aðalhljómsveitarstjóri. Þannig hefur verið litið til þess að ákveðin straumhvörf hafi orðið hjá hljómsveitinni þegar hún hélt sína fyrstu tónleika í Carnegie Hall í New York undir hans stjórn árið 1996. Þar hlaut hún frábærar viðtökur og alþjóðlega athygli. Þessir tónleikar lifa enn í minni þeirra sem þá voru í hljómsveitinni og er oft minnst.“

Nánar um Osmo