EN

20. febrúar 2003

Verkið samið í minningu Guðrúnar Katrínar

Verk Atla Heimis Sveinssonar, Doloroso, sem Sinfóníuhljómsveitin flytur á tónleikum fimmtudaginn 27. febrúar er samið í minningu Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur "... forsetafrúarinnar sem varð allri íslensku þjóðinni harmdauði þegar hún féll frá á besta aldri" segir höfundurinn í hugleiðingum sínum um tilurð verksins. +++ Gefum Atla Heimi orðið: "Við Íslendingar erum fámenn þjóð, og við þekkjumst flestöll. Ég var málkunnugur Guðrúnu Katrínu og samband okkar var hlýlegt; hún ólst upp í Vesturbænum eins og ég. Titilinn segir allt um verkið. Það er hugleiðing um sársauka, söknuð og missi. Vitnað er frjálslega í útfararsálminn Allt eins og blómstrið eina, sem sunginn er yfir moldum allra Íslendinga. Og það er einleiksfiðlan sem syngur lagið- eins og eftir minni. Sumir segja að tónlistin sé andheimur, annar en veruleiki hlutanna. Sumir segja að tónlistin geti linað sorg hins jarðneska lífs og veitt mannkyninu huggun. Doloroso var samið með það í huga." Þau leiðu mistök hafa átt sér stað að heiti verksins hefur verið rangt í kynningarefni frá Sinfóníuhljómsveitinni. Verkið heitir Doloroso og viljum við biðjast velvirðingar á því.