EN

  • tectonics_stor

13. apríl 2016

Fimmta Tectonics Reykjavík tónlistarhátíðin

Tectonics Reykjavík tónlistarhátíðin fer fram í fimmta sinn í Hörpu dagana 14. og 15. apríl. Sinfóníuhljómsveit Íslands stendur fyrir hátíðinni og sem fyrr er Ilan Volkov listrænn stjórnandi hennar. Tectonics var fyrst haldin í Reykjavík árið 2012 en hefur síðan ferðast til skosku BBC-sinfóníuhljómveitarinnar í Glasgow, Adelaide sinfóníuhljómsveitarinnar í Ástralíu, New York, Tel Aviv og nú síðast bættist Óslóarfílarmónían í hópinn.

Meðal listamanna sem koma fram auk Sinfóníuhljómsveitar Íslands eru Roscoe Mitchell (US), Peter Ablinger (AU), Goodiepal (DK) og Séverine Ballon (FR). Sinfóníuhljómsveitin frumflytur alls sjö ný verk sem flest verða frumflutt á heimsvísu á hátíðinni. Höfundar þessara verka eru Jim O'Rourke, Peter Ablinger, Roscoe Mitchell, Frank Denyer, Davíð Franzson, Þráinn Hjálmarsson og María Huld Markan Sigfúsdóttir. Auk þess koma fram í Norðurljósasal Hörpu Borgar Magnason, Kira Kira og fleiri en jafnframt verða flutt ný verk í opnu rými Hörpu eftir Inga Garðar Erlendsson og Hafdísi Bjarnadóttur. Í verkum í opnu rými njótum við krafta Ungsveitar Sinfóníuhljómsveitar Íslands, nemenda Listaháskóla Íslands, Skólahljómsveitar Árbæjar og Breiðholts og Skólahljómsveitar Kópavogs. 

Dagskráin fer fram frá kl. 18 til 23 báða dagana. Alls verða haldnir átta tónleikar sem eru að vanda stútfullir af spennandi tónlist.

Í aðdraganda hátíðarinnar stóð Tectonics Reykjavík fyrir málþingi í samstarfi við Listaháskóla Íslands um stöðu sinfóníuhljómsveita á 21. öld þar sem möguleikum á þróun þeirra verður rædd ásamt fleiru. Jafnframt var boðið upp á fyrirlestur með Peter Ablinger í samstarfi við Listaháskóla Íslands. 

Nánari upplýsingar um hátíðina má nálgast á vef hennar www.tectonicsfestival.com 

Efnisskrá