EN

22. apríl 2016

Lokatónleikar samstarfs SÁB og SÍ

Sinfóníuhljómsveit Íslands hefur starfað með Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts (SÁB) undanfarin tvö ár. Samstarfið hófst í maí 2014 þegar Sinfóníuhljómsveitin sótti skólahljómsveitina heim og hélt með þeim tónleika í Breiðholtsskóla og Fylkishöll. Skólahljómsveitin hefur undanfarin tvö ár komið fram á jólatónleikum Sinfóníunnar og á Tectonics-tónlistarhátíðinni, ásamt því að leika í opnum rýmum Hörpu á undan völdum tónleikum í fjölskylduröð Sinfóníuhljómsveitarinnar, Litla tónsprotanum. Auk þess buðu Skólahjómsveitirnar til tónleika í Eldborgarsal Hörpu í mars 2015 þar sem nemendum úr skólum í Breiðholti og Árbæ var boðið á tónleika í Eldborg og til samverustundar með Sinfóníuhljómsveitinni eftir tónleika.

„Markmið Sinfóníunnar með fræðsluverkefni sem þessu er að vekja athygli á því  frábæra starfi sem unnið er skólahljómsveitum og að fá tækifæri til að stafa með og kynnast nemendum hljómsveitanna, bæði á þeirra heimavelli og í heimkynnum okkar í Hörpu. Með samspilinu skapast dýrmæt tengsl og vinátta milli tónlistarnemanna og okkar í  Sinfóníuhljómsveit Íslands.“

Segir Arna Kristin Einarsdóttir framkvæmdarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Tónleikar 22. apríl

Nú lýkur þessu skemmtilega tveggja ára samstarfi með stórtónleikum í Breiðholti og Árbæ þar sem SÁB og SÍ koma fram í Fylkishöllinni og ÍR-höllinni með kraftmikla dagskrá þar sem allir nemendur úr SÁB koma fram ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi tónleikanna er Rúnar Óskarsson, stjórnandi SÁB er Snorri Heimisson og kynnir Hjördís Ástráðsdóttir.

Sinfóníuhljómsveit Íslands mun halda áfram með fræðsluverkefnið og næstu tvö árin mun hún vinna með Skólahljómsveit Kópavogs.