EN

  • Uppklapp

3. maí 2016

Sinfóníuhljómsveitin í 5 ár í Hörpu

Þann 4. maí eru liðin 5 ár frá því Sinfóníuhljómsveit Íslands hélt opnunartónleika í Hörpu undir stjórn Vladimirs Ashkenazy heiðursstjórnanda hljómsveitarinnar. Tónleikarnir voru söguleg stund í íslensku tónlistarlífi enda höfðu margir beðið eftir nýju tónlistarhúsi svo áratugum skipti.

Hljómsveitin flutti glæsilega og fjölbreytta efnisskrá á opnunartónleikunum þar sem leikið var nýtt verk eftir Þorkel Sigurbjörnsson sem samið var fyrir tilefnið; Víkingur Heiðar Ólafsson lék einleik í píanókonsert Edvards Grieg og að lokum flutti hljómsveitin 9. sinfóníu Beethovens. Einsöngvarar voru Christiane Oelze, Sesselja Kristjánsdóttir, Kolbeinn Jón Ketilsson og Bjarni Thor Kristinsson en að auki tók Óperukórinn í Reykjavík ásamt Kór Áskirkju og Hljómeyki þátt í þessum viðamikla flutningi.

Tónleikarnir sýndir á RÚV

Tónleikarnir voru endurteknir 5. og 6. maí í Hörpu og teknir upp og sendir út í Sjónvarpinu. Í tilefni af tímamótunum mun RÚV endursýna upptökuna frá opnunartónleikunum síðdegis á uppstigningardag.

Sinfóníuhljómsveit Íslands útbjó lítið myndband frá fyrstu dögum hennar í Hörpu sem nú hefur verið birt á YouTube-rás hennar og er aðgengilegt hér að neðan.

Horfa