EN

31. mars 2003

Joshua Bell leikur fiðlukonsert Brahms

Þegar Alan og Shirley Bell fóru að veita því athygli að fjögurra ára gamall sonur þeirra lék sér gjarnan að því að plokka laglínur á gúmmíteygjur sem hann strengdi yfir handföngin á fataskápnum sínum, datt þeim í hug að koma honum í fiðlunám. Tólf ára gamall hafði hann náð ótrúlegri leikni á hljóðfærið ekki síst fyrir atbeina læriföður síns, fiðluleikarans Josef Gingold. Drengurinn ungi var ekki í vafa um að hans biði ævistarf fiðluleikarans. Þessi ungi piltur heitir Joshua Bell og er í dag talinn einn af bestu fiðluleikurum heimsins og er kominn til landsins til þess að leika hinn óviðjafnanlega fiðlukonsert Johannesar Brahms á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar á fimmtudagskvöldið næstkomandi.+++ Áheyrendur hafa tekið vel við sér og nánast er orðið uppselt á tónleikana. Önnur verk á efnisskránni hafa líka sterkt aðdráttarafl en þar er um að ræða Macbeth eftir Richard Strauss og sjálfa 5. sinfóníu Beethovens. Það er góðvinur okkar Petri Sakari sem mun stýra flutningnum en hann hélt einnig um tónsprotann þegar Joshua Bell heimsótti Ísland árið 1993 og vann hug og hjörtu áheyrenda. Hljóðfærið sem Joshua Bell leikur á öllu jöfnu á sér stórmerkilega sögu. Fyrrum eigandi hennar, pólski fiðluleikarinn Bronislaw Huberman, missti hana tvivar í hendur þjófa. Í síðara skiptið hvarf hún mönnum sjónum í rúmlega hálfa öld, þar til hún skaut loks upp kollinum árið 1987. Fiðlan er metin á um 400 milljónir íslenkra króna - takk fyrir!