EN

12. maí 2003

Mikil sala á ABBA-tónleikana í Höllinni

Tónlist ABBA er sannkallað bindiefni kynslóðanna ef marka má viðtökur við tónleikunum Thank you for the music (sjá efnisskrá) sem fara fram í Laugardalshöll um næstu helgi. Miðarnir rjúka út og tónleikagestirnir eru unglingar, eldri borgarar og allt þar á milli. Æfingar hefjast nú í vikunni en undirbúningur hefur að sjálfsögðu staðið um langt skeið. Það er West End International í London +++sem er samstarsaðili SÍ á þessum tónleikum. Martin Yates heitir stofnandi West End International og það er hann sem mun stýra Sinfóníuhljómsveitinni á tónleikunum. Fjöldi þrautreyndra söngvara frá West End mun syngja með hljómsveitinni á tónleikunum, allt er þetta fólk sem hefur síðustu árin tekið þátt í fjölda söngleikja og tónleika á vegum West End. Miðaverð á tónleikana er 3500 kr í sæti og 3000 kr. í stúku! Föstudaginn 16. maí kl. 19.30 Laugardaginn 17. maí. kl. 17.00 Rythmasveitin sem leikur með Sinfóníuhljómsveitinni á tónleikunum er skipuð einvalaliði: Jón Ólafsson, píanó Gunnlaugur Briem, trommur Guðmundur Pétursson, gítar Roland Hartwell, gítar Richard Korn, bassi Þeir eru fjölhæfir hljóðfæraleikarar Sinfóníuhljómsveitarinnar en eins og sjá má færa okkar menn, Roland og Richard, sig úr stað á þessum tónleikum. Richard handleikur öllu jöfnu kontrabassann en tekur upp rafmagnsbassann að þessu sinni og Roland sem leikur á fiðlu með Sinfóníuhljómsveitinni sýnir að honum er fleira til lista lagt. Á myndunum má söngvarana bresku sem ætla sér að feta í fótspor fjórmenningana sænsku og stjórnandann Martin Yates.