EN

16. júní 2003

Maxim Vengerov á Viðhafnartónleikum

Maxim Vengerov er án efa einn fremsti fiðluleikari heimsins í dag, 29 ára gamall. Hann vakti snemma athygli fyri leikni sína, var ekki nema fjögurra ára þegar hann hóf fyrst að leika á fiðlu og hefur á ferli sínum hlotið fjölda viðurkenninga, +++hreppt fyrsta sæti í tónlistarkeppnum um víða veröld og hlotið tvær Grammy-tilnefningar svo eitthvað sé nefnt. Vengerov verður gestur Sinfóníuhljómsveitar Íslands þegar hljómsveitin hefur nýtt starfsár á sérstökum Viðhafnartónleikum (kaupa miða) þann 4. september næstkomandi þar sem Rumon Gamba, aðalhljómsveitarstjóri, mun halda um tónsprotann. Fregnin um komu Vengerovs hefur greinilega náð eyrum margra því þegar er farið að bera á fyrirspurnum um tónleikana. Miðasala hefst fimmtudaginn 19. júní á skrifstofu Sinfóníuhljómsveitarinnar en einnig verður hægt að kaupa miða á heimasíðu hljómsveitarinnar sinfonia.is. Einungis verður um þessa einu tónleika að ræða og aðeins hægt að kaupa miða, þeir verða ekki teknir frá. Miðarnir kosta 5000 og 4000 krónur. Vengerov mun leika Symphony espagnole eftir Edouard Lalo og Tzigane eftir Maurice Ravel. Hljómsveitarverk á tónleikunum eru eftir Victor Urbancic, Emmanuel Chabrier, William Walton og Nikolaj Rimskíj-Korsakov. Koma Maxim Vengerov er tilhlökkunarefni og ákaflega glæsileg byrjun á nýju tónleikaári, sannkallaður hvalreki á fjörur tónlistarunnenda. Tónleikarnir eru, sem fyrr sagði, fimmtudaginn 4. september og hefjast þeir klukkan 19.30.