EN

11. ágúst 2003

Flugeldasýning á fyrstu tónleikum haustsins

Maxim Vengerov er án efa einn fremsti fiðluleikari heimsins í dag. Hann vakti snemma athygli fyrir leikni sína, var ekki nema fjögurra ára þegar hann hóf fyrst að leika á fiðlu og hefur á ferli sínum hlotið fjölda viðurkenninga, hreppt fyrsta sæti í tónlistarkeppnum um víða veröld og hlotið tvær Grammy-tilnefningar svo eitthvað sé nefnt. Vengerov verður gestur Sinfóníuhljómsveitar Íslands þegar hljómsveitin hefur nýtt starfsár á sérstökum Viðhafnartónleikum þann 4. september næstkomandi þar sem Rumon Gamba, aðalhljómsveitarstjóri, mun halda um tónsprotann. +++ Vengerov mun leika Symphony espagnole eftir Edouard Lalo og Tzigane eftir Maurice Ravel. Hljómsveitarverk á tónleikunum eru eftir Victor Urbancic, Emmanuel Chabrier, William Walton og Nikolaj Rimskíj-Korsakov. Koma Maxim Vengerov er tilhlökkunarefni og ákaflega glæsileg byrjun á nýju tónleikaári, sannkallaður hvalreki á fjörur tónlistarunnenda. Tónleikarnir eru, sem fyrr sagði, fimmtudaginn 4. september og hefjast þeir klukkan 19.30.